Forsetaheimsókn

Forsetahjónin ásamt kvennalandsliðum Íslands (D.S)
Forsetahjónin ásamt kvennalandsliðum Íslands (D.S)

Það var sannarlega kátt í skautahöllinni s.l. helgi og segja má að allt hafi iðað af lífi á ísnum sem utan hans þar sem bæði A landslið og U18 landslið kvenna komu saman í fyrstu æfingabúðum tímabilsins. Kim McCullough aðalþjálfari U18 liðsins og aðstoðarþjálfari A liðsins var með liðunum og miðlaði af sinni miklu þekkingu og reynslu til leikmanna ásamt Jóni Gíslasyni aðalþjálfari A landsliðsins. Lögðu þau línurnar fyrir komandi tímabil og nutu liðsinnis þeirra Silvíu Björgvinsdóttur aðstoðarþjálfara U18 liðsins og Atla Sveinssonar þjálfara hjá SA.

Við fengum líka góða gesti í höllina þegar forseti Íslands Guðni Th. Jóhannesson, frú Elísa Reid, ásamt fríðu föruneyti og Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri og Halla Björk Reynisdóttir forseti bæjarstjórnar litu við ásamt ekki síðra föruneyti. Þau heilsuðu upp á leikmenn landsliðanna, dáðust af nokkrum af okkar efnilegu list dönsurum sem voru við æfingar á ísnum og fengu fróðleik um upphaf krullunnar á Ísland og tengsl við Kanada frá bræðrum Davíð og Hallgrími Valssonum. Krulla er Elísu ekki alveg ókunn þar sem hún spilaði íþróttina sjálf þegar hún var í skóla. 

Sigurður Sveinn Sigurðsson formaður Skautafélagsins fór svo í broddi fylkingar um höllina og sýndi gestunum framkvæmdirnar sem staðið hafa yfir og eru vel á veg komnar en þær munu gjörbreyta aðstöðu iðkenda allra deilda sem og starfsemi félagsins í heild sinni. 

Það er öflug hokkí helgi að baki fyrir leikmenn kvennaliðanna enda ekki seinna vænna þar sem fyrstu leikir í Herts deild kvenna eru um næstu helgi þegar kvennalið Fjölnis sækir SA liðið heim. Það þykir nokkuð ljóst að leikirnir í deildinni verði mjög spennandi á komandi tímabili.

Meðfylgjandi myndir tóku Daníel Starrason og Elísabet Ásgríms

Myndaalbúm