Ásynjur sigruðu Björninn 6-0

Birna var í stuði um helgina (mynd: Elvar Freyr)
Birna var í stuði um helgina (mynd: Elvar Freyr)

Ásynjur gerðu góða ferð suður yfir heiðar um helgina þegar þær heimsóttu Björninn í Grafarvogi. Heldur meira jafnræði var með liðunum nú heldur en í undanförnum viðureignum þeirra en leiknum lauk þó með öruggum 0-6 sigri gestanna.

Fyrsta mark leiksins kom á 6. mínútu en það var Birna Baldursdóttir opnaði markareikninginn fyrir Ásynjur. Var það fyrirliðinn Linda Brá Sveinsdóttir sem lagði upp markið með mikilli vinnusemi og góðri stoðsendingu. Ekki leið á löngu þar til Linda Brá endurtók leikinn og sendi stoðsendingu á Önnu Sonju Ágústsdóttur sem kom pekkinum framhjá markmanni Bjarnarins með snöggu skoti. Staðan þá orðin 0-2 og hélst hún þannig fram að fyrra leikhléi.

Birna var svo aftur á ferðinni um miðja 2. lotu og skoraði með stoðsendingu frá Guðrúnu Marínu Viðarsdóttur.  Birna var í miklu stuði í leiknum og rétt áður en lotan var úti sendi hún pökkinn á Jónínu Margréti Guðbjartsdóttur sem var frábærlega staðsett og klikkaði ekki á færinu heldur þrumaði pekkinum í netið og kom Ásynjum í mjög þægilega stöðu 0-4 fyrir seinna leikhléið.

Fyrri hluti 3. lotu einkenndist af brotrekstrum leikmanna Bjarnarins en þær fengu þrjá 2 mín. dóma með reglulegu millibili. Það var þó ekki fyrr en síðasti dómurinn var um það vil að renna út að Ásynjur náðu að nýta sér liðsmuninn. Var það Guðrún Marín sem skaut á markið eftir langa sendingu frá Önnu Sonju en markmaður Bjarnarins, Guðlaug Ingibjörg Þorsteinsdóttir, varði skotið. Birna Baldursóttir var þó ekki lengi að hriða frákastið og koma pekkinum í netið og fullkomnaði þar með þrennu sína. Alda Ólína Arnarsdóttir insiglaði svo 0-6 sigur Ásynja þegar einungis 5 mínútur voru eftir af leiknum en hún hamraði pekkinum í markið þegar pökkurinn barst til hennar úr frákasti eftir skot frá Jónínu Margréti.

Ásynjur eiga nú aðeins eftir 2 leiki gegn Skautafélagi Reykjavíkur, helgina 18. og 19. febrúar í Reykjavík. Deildinni líkur svo með leik SR og Ynja þann 21. febrúar en úrslitakeppnin hefst ekki fyrr en eftir HM kvenna í íshokkí sem haldið verður á Akureyri 27. feb.-5. mars.

 

Mörk/stoðsendingar Ásynja:

Birna Baldursdóttir 3/1

Jónína Margrét Guðbjartsdóttir 1/1

Alda Ólína Arnarsdóttir 1/0

Anna Sonja Ágústsdóttir 1/0

Guðrún Marín Viðarsdóttir 0/2

Linda Brá Sveinsdóttir 0/2

Thelma María Guðmundsdóttir 0/1

 

Refsingar Ásynja:

2 mínútur

 

Refsingar Bjarnarins:

8 mínútur