Sögulegu Vormóti lokið

Sædís Heba Guðmundsdóttir
Sædís Heba Guðmundsdóttir

Vormót ÍSS fór fram í Skautahöllinni hjá okkur um síðustu helgi en mótið er eitt það stærsta sem haldið hefur verið í listskautum. Keppt var í ÍSS keppnislínu, félagalínu og Special Olympics/Adaptive Skating á listskautum en svo var einnig keppt í skautahlaupi opinberlega í fyrsta sinn í 42 ár á Íslandi.
Mótið er síðasta mót tímabilsins og voru Bikarmeistarar krýndir í lok móts.

Eins og greint er frá á heimasíðu skautasambands Íslands var dagskráin þétt en hún hófst snemma á föstudag og endaði um hádegi á sunnudag. Freydís Jóna Jing og Sædís Guðmundsdóttir kepptu fyrir hönd SA í Junior Women en Freydís þurfti því miður að draga sig úr keppni fyrir frjálsa prógrammið eftir slæmt fall í stutta prógramminu sem leiddi til að hún gat ekki lokið keppni. Sædís Heba Guðmundsdóttir náði persónulegu stigameti með 103.97 stig sem dugði í annað sæti í flokknum en hún var að keppa á sínu fyrsta móti í keppnisflokknum. Skautafélag Akureyrar átti 3 keppendur í Basic Novice flokki en þar náði Helga Mey Jóhannsdóttir þriðja sæti. 

Á laugardagskvöld var svo keppt í skautahlaupi en þar átti Skautafélag Akureyrar einn keppanda, Jóhannes Jakobsson en hann varð í öðru sæti.

Listskautadeild Fjölnis stóð uppi sem sigurvegari Bikarmótaraðar 2024 með 116 stig. Þetta er í annað sinn sem Fjölnir fær bikarinn og mun nú varðveita hann í eitt ár í viðbót.

Við þökkum Fjölni, Skautafélagi Reykjavíkur, Öspinni og öllum keppendum og starfsfólki kærlega fyrir komuna á mótið og hlökkum til að taka á móti ykkur aftur að ári.