Sigur hjá kvennaliðinu í leik nr. 2

Linda, Þorbjörg og Guðrún Arngríms í viðbragðsstöðu.  Myndina tók Sigurgeir Haraldsson
Linda, Þorbjörg og Guðrún Arngríms í viðbragðsstöðu. Myndina tók Sigurgeir Haraldsson

Fyrir stundu lauk annarri viðureign SA og Bjarnarins í úrslitakeppni kvenna, en þessi leikur fór fram í Egilshöllinni.  Okkar stelpur hófu leikinn af miklum krafti og allt stefndi í stórsigur liðsins.  Staðan eftir fyrstu lotu var 3 - 0 eftir mörk frá Söruh Smiley, Hrund Thorlacius og Birnu Baldursdóttur.  Leikurinn jafnaðist hins vegar mikið eftir þetta og næsta lota varð markalaus og það var ekki fyrr en liðið var fram yfir miðja þriðju lotu að draga tók til tíðinda.

 

Á 52. mínútu leiksins skoraði Hanna Heimisdóttir fyrir Björninn og minnkaði muninn í 3 - 1 og aðeins tveimur mínútum síðar skoraði Flosrún Vaka annað mark og nú var leikurinn skyndilega orðinn spennandi.  Síðustu mínúturnar var hart barist en okkar stúlkur héldu þetta út og tryggðu sér sigur og hafa nú 2 - 0 forystu í úrslitaeinvíginu.  Næsti leikur fer fram hér á Akureyri á miðvikudaginn kl. 19:00 og þá hefur liðið tækifæri til að tryggja sér Íslandsmeistaratitilinn.  Það má enginn láta þann leik framhjá sér fara.