Víkingar sigruðu SR

Mynd: Ásgrímur Ágústsson (23.11.2013)
Mynd: Ásgrímur Ágústsson (23.11.2013)


Víkingar sóttu þrjú stig í Laugardalinn í kvöld þegar liðið heimsótti SR. Ben DiMarco skoraði tvö af fjórum mörkum Víkinga.

Ben DiMarco hefur verið iðinn við markaskorun síðan hann hóf að leika með SA. Hann kom Víkingum yfir með marki þegar tæpur stundarfjórðungur var liðinn af leiknum. Víkingar voru þá einum færri en náðu samt forystunni. Pétur Maack jafnaði leikinn í 1-1 þegar 12 sekúndur voru eftir af öðrum leikhluta.

Í þriðja leikhlutanum höfðu Víkingar völdin og bættu við þremur mörkum. Fyrst kom Andri Freyr Sverrisson Víkingum yfir, síðan jók Ben DiMarco forystuna í tvö mörk og Björn Már Jakobsson skoraði fjórða markið þegar um 10 mínútur voru eftir. Fleiri mörk voru ekki skoruð og úrslitin: SR - Víkingar 1-4 (0-1, 1-0, 3-0).

Tölfræðin um skot á mark og markvörslu segir líklega það sem segja þarf um það hvernig leikurinn spilaðist, þó svo mörkin hafi látið bíða eftir sér. SR átti 16 skot á mark, en Víkingar 63.

Í tíufréttum Sjónvarpsins mátti sjá hluta markanna (08:57 mín.) - og atvikalýsingu má finna á vef ÍHÍ.

Mörk/stoðsendingar
SR
Pétur Maack 1/0
Miloslav Racansky 0/1
Refsimínútur: 8
Varin skot: 59

Víkingar
Ben DiMarco 2/0
Björn Már Jakobsson 1/0
Andri Freyr Sverrisson 1/0
Stefán Hrafnsson 0/2
Ingólfur Tryggvi Elíasson 0/1
Jóhann Már Leifsson 0/1
Orri Blöndal 0/1
Refsimínútur: 8
Varin skot: 15

Með sigrinum eru Víkingar komnir í 25 stig, einu stigi á eftir Birninum. Bæði lið hafa leikið 10 leiki. Það þarf ekki mikinn talnaspeking til að sjá að allar líkur eru á að það verði Víkingar og Björninn sem muni leika til úrslita um Íslandsmeistaratitilinn, baráttan framundan snýst um það hvort vinnur deildarmeistaratitilinn og þar með oddaleiksréttinn í úrslitakeppninni.

Rúmur mánuður er í næsta leik Víkinga, en þeir mæta SR á heimavelli þriðjudaginn 21. janúar. Næsti leikur í mfl. karla verður hins vegar í Skautahöllinni á Akureyri kl. 16.30 á laugardaginn, 21. desember, þegar Jötnar fá Húna í heimsókn. Strax á eftir þeim leik mætst SA og Björninn í mfl. kvenna.