Úrslit tvíhöfðanna um helgina

Silvía á ferðinni (mynd: Elvar Pálsson)
Silvía á ferðinni (mynd: Elvar Pálsson)

Bæði Ynjur og 2. Flokkur spiluðu um helgina tvíhöfða í Egilshöll þar sem spilað var á laugardagskvöld og sunnudagsmorgun en fyrri leikurinn í morgun hófst kl 7.00!

Í leik Ynja við Björninn á laugardagskvöld náðu Ynjur forystunni í tvígang en náðu ekki að halda aftur af Birninum sem skoruðu 4 mörk og lokastaðan 4-2. Mörk Ynja skoruðu  Silvía Björgvinsdóttir og Guðrún Marín Viðarsdóttir eftir stoðsendingu frá Silvíu.

Ynjur spiluðu svo hörku leik við Björninn í morgun þar sem Björninn náði forystunni í fjórgang en í þrígang jöfnuðu Ynjur svo upp á vantaði eitt mark og Björninn fór með sigur af hólmi, lokastaðan 4-3. Mörk Ynja skoruðu Silvía Björgvisdóttir, Kolbrún Garðarsdóttir og Ragnhildur Kjartansdóttir.

Í leik 2. flokks á laugardag náði Björninn 2-0 forystu en með miklu harðfylgi náðu SA að jafna leikinn með marki frá Alfreði Sigurðarsyni eftir glæsilegan undirbúning Sigurðar Þorsteinssonar en Einar Kristján Grant skoraði fyrra mark SA. Leikurinn fór í vítakeppni og þurfti 5 víti til þess að útkljá einvígið sem Björninn sigraði að lokum.

Seinni leikur 2. flokks var ekki síður spennandi en Björninn náðu forystunni snemma leiks en Halldór Ingi Skúlason jafnaði leikinn. Björninn náðu aftur forystu en Alfreð jafnaði leikinn rétt eins og á laugardaginn en Heiðar Örn Kristveigarson skoraði svo sigurmarkið í venjulegum leiktíma. Góð uppskera hjá drengjunum sem börðust eins og ljón fyrir stigunum þar sem lukkan var ekki endilega á þeirra bandi en þeir þurftu að grafa djúpt til þess að finna leið fram hjá góðum markverði Bjarnarins.