U20: Markmiðinu náð, en ekki gullinu.

Flottur hópur
Flottur hópur
Rétt í þessu var að ljúka úrslitaleiknum á HM í Tyrklandi þar sem Ísland tapaði fyrir Ástralíu 1 - 3.  Í gær unnu okkar menn þó mikilvægasta sigurinn á Nýja Sjálandi því með þeim sigri tryggði liðið sér farseðilinn uppúr 3. deildinni og munu því spila í 2. deild að ári.  Þrátt fyrir að því takmarki hafi verið náð í gær var leikurinn í dag mikilvægur því stefnan er alltaf sett á sigur.  Ástralía er enn aðeins sterkari en við og enn ætlar að verða einhver bið á því að við náum að landa sigri á móti þessum andfætlingum okkar - en biðin styttist.

 

Strákarnir geta engu síður borið höfuðið hátt og verið stoltir af frammistöðu sinni.  Þetta er án efa eitt sterkasta U20 lið sem við höfum teflt fram, ef ekki það sterkasta.  Stór hluti liðsins heldur áfram á næsta ári og stefnan því sett á að gera góða hluti í 2. deildinni.  Nú halda allir heim á hótel og undirbúa heimförina sem hefst snemma í fyrramálið.

Í lok móts var Róbert Pálsson varnarmaður valinn besti leikmaður íslenska liðsins á mótinu.  Mattías Máni Sigurðarson var hins vegar valinn besti sóknarmaðurinn á öllu mótinu en hann er leikmaður sem er að spila á sínu fyrsta móti fyrir Íslands hönd.  Hann býr í Noregi og hefur alla tíð spilað þar og er alger hvalreki fyrir okkur og næsta víst að hann gerir mjög harða atlögu að sæti í karlalandsliðinu.