U20 landsliðið heldur utan

Í morgun hélt U20 landsliðið utan til keppni í 3.deild Heimsmeistaramótsins í íshokkí, sem að þessu sinni fer fram í Istanbul í Tyrklandi dagana 4. - 10 janúar.  Liðið er nú í 3. deild en miklar vonir standa til þess að liðið vinni deildina að þessu sinni og vinni sér sæti í 2. deild að nýju þar sem liðið á réttilega heima.  Mótherjar Íslands að þessu sinni eru N-Kórea, Tyrkir, Taipei, Ástralía, Búlgaría og Nýja-Sjáland.  Þar sem liðin eru einu fleiri en venjulega er spilað í riðlum og Ísland var frekar heppið með riðil og spilar fyrst við Taipei, svo N-Kóreu og síðan Tyrkland áður en til úrslita kemur.

Það er þó aldrei hægt að ganga að einhverju vísu gegn þessum liðum því það er aldrei að vita hvort einhverjir leikmenn með tvöfalt ríkisfang leynist í liðunum sem geta gert okkur erfitt fyrir.  Ísland hefur spilað gegn öllum þessum liðum áður á ýmsum aldursstigum nema Taipei, sem nú eru að tefla fram liðið í fyrsta skiptið.  Það er einhver landfræðileg og stjórnmálaleg dulúð yfir þessu liði því Taipei er höfuðborg Tævans og þar af leiðandi ríkis sem kallar sig "Lýðveldið Kína", Kínverjum sjálfum til mikillar armæðu sem ekki hafa viðurkennt sjálfstæði þeirra.

Fyrirfram er ekki búist við miklu af þessu liði, frekar en öðrum nýliðum, en í leikinn verður farið af miklum krafti hver sem mótstaðan verður.  Tyrkina eigum við að vinna en N-Kórea er ekki beinlínis að flíka sínu íþróttastarfi þannig að lítið er vitað um þeirra getu.  Eitt er þó víst að þeir eru ekki með leikmenn með tvöfalt ríkisfang, annað hvort ertu frá Norður Kóreu eða ekki.  Karlalandsliðið vann N-Kóreu síðasta vor í Serbíu og því er ætlast til þess sama af U20.

Ef liðið vinnur riðilinn fer það í úrslitin og þar verða Ástralir líklegustu mótherjarnir.  Þeir eru með mjög sterka deild en styrkleiki hennar felst fyrst og fremst í gríðarlegum fjölda útlendinga sem spila þarna á suðurhveli á meðan deildir á norðurhveli eru í sumarfríi.  Karlalandsliðið tapaði 3 - 0 fyrir Ástralíu á þeirra heimavelli fyrir tveimur árum, en í því liði voru 12 leikmenn af erlendum uppruna, þ.e. Kanadamenn, Bandaríkjamenn og Tékkar.  Það gefur því ekki rétta mynd af getu innlendu leikmannanna, og því er almennt talið að við eigum öflugri yngri leikmenn. Miðað við þessar forsendur þá eigum við að vinna þetta mót og ekkert múður.

Skautafélag Akureyrar á nokkra leikmenn í liðinu; Andra sænska, Ingólf Elíasson, Orra Blöndal, Gunnar Darra, Hilmar og Jóa Leifs.  Siggi Árna átti einnig að vera í liðinu en varð að draga sig úr hópnum vegna meiðsla.  Leifur Ólafsson tækjastjóri SA er tækjastjóri liðisins og þjálfarinn er Josh Gribben.

Þeim sem og öllum hinum óskum við góðs gengis á mótinu.  Reikna má með því að fararstjórn liðsins muni gera mótinu góð skil á heimasíðu sambandsins www.ihi.is en auk þess er hægt að fylgjast með leikjunum og fá allar tölulegu upplýsingar beint í æð á http://www.iihf.com/channels0910/wm20-iii