U20 landslið Íslands með sögulegan árangur

U20 ungmennalandslið Íslands í íshokkí náði sögulegum árangri um helgina þegar liðið vann bronsverðlaun á Heimsmeistaramótinu í II deild b sem fram fór í Pionir Arena í Belgrad í Serbíu. Ísland tryggði sér bronsið með því að leggja Chinese Tapei örugglega 9-4 í síðasta leik en áður hafði liðið unnið bæði Ástralíu og Belgíu. Rúmenía sem stal sigrinum gegn Íslandi í síðustu viku vann svo gullverðlaunin og fer upp um deild. Bronsverðlaunin eru besti árangur sem Ísland hefur náð í þessum aldursflokki á heimsmeistaramóti svo árangurinn er sögulegur og enn eitt merki um ágætti þessarar nýju kynslóðar leikmanna í íslensku íshokkí. SA Víkingurinn Arnar Helgi Kristjánsson var valin besti varnarmaður mótsins en hann var stigahæsti leikmaður Íslands á mótinu með 9 stig (2+7) og þriðji stigahæsti leikmaður mótsins. Akureyringarnir Alex Máni Sveinsson, nú leikmaður Örnskoldsvik í sænsku 1. deildinni, var markahæsti leikmaður Íslands í mótinu með 4 mörk (4+4) og Helgi Þór Ívarsson, leikmaður ungmennaliðs EJ Kassel í Þýskalandi, var með þriðja hæsta markvörsluhlutfall mótsins 91,87% markvörslu.