Takk fyrir íshokkítímabilið og gleðilegt sumar!

Þá erum við í hokkídeildinni búin að klára íshokkíveturinn með style! Við enduðum vetrarstarfið okkar með hinu skemmtilega vormóti sem við höldum alltaf í maí. Um er að ræða innanfélagsmót með 5 deildum, 17 lið í heildina fyrir krakka á aldrinum 4-16 ára.  Mótinu lauk formlega með lokahófi á þriðjudaginn s.l. þar sem þátttakendur úr yngri flokkunum gæddu sér á grilluðum pylsum og allir fóru heim með viðurkenningar.  

Við erum alsæl með veturinn okkar í barnastarfinu þar sem við tókum á móti 70 byrjendum! Vonandi halda allir þessir efnilegu snillingar áfram að æfa hjá okkur á næsta tímabili. Það er klárt mál að  frístundaaksturinn sem Akureyrarbær styrkir okkur um er að skila sér vel. Börn úr 2.- 4. bekk eru sótt í alla skóla á Akureyri tvisvar sinnum í viku, mæta í höllina, fá aðstoð við að klæða sig í gallann, fara á ísæfingu, geyma búnaðinn hjá okkur og eru komin til baka á skólalóðina milli 15:30 og 16:00. Við elskum að fá krakkana okkar á æfingu svona snemma á daginn meðan allir eru enn fullir atorku auk þess sem þetta fyrirkomulag gerir jafnvel enn fleirum kleift að taka þátt og skilar klárlega frábæru starfi. Við þökkum Norðurorku kærlega fyrir okkur en  það er styrkur frá þeim sem hjálpar okkur að kosta þessa þjónustu.

Svo hlökkum til að sjá alla sem vilja leika með okkur áfram í sumar en í júní verðum við með  leikjanámskeið á skautum; 12. -16. júní og 19. - 23. júní fyrir börn fædd 2013 - 2017 en fyrir eldri iðkendur bjóðum við upp á afísæfingar.    

Svo byrjum við fersk á ný með ísæfingarbúðir fyrir alla hópana þann 1. águst !

Gleðilegt sumar! Áfram SA 

Skráning á sumarnámskeið:

https://www.sportabler.com/shop/sa/ishokki