SR - SA; 5 - 2

Meira um leikinn á laugardaginn.

Á laugardagskvöldið lékum við norðanmenn okkar fyrsta leik gegn Skautafélagi Reykjavíkur á þessu tímabili.  Við fórum með stóran hóp, eða 19 leikmenn og höfðum því svo þrjár fullar línur, tvo markmenn og tvo til.  Við vissum sem var að við þyrftum að hafa nánar gætur á erlendu leikmönnunum í liði SR og gæta okkar á því að lenda ekki í vandræðum með brottvísanir.

 

Leikur fór ágætlega af stað fyrir okkur því Einar Guðni kom SA yfir strax á 3. mínútu leiksins eftir sendingu frá Guðmundi Guðmundssyni.  Þrátt fyrir að vita hvað þyrfti að vera í lagi, byrjuðum við á því að láta henda okkur útaf og lentum strax á 4. mínútu leiksins í því að lenda í 3 á 5 “penaltykill” og þrátt fyrir ágætis baráttu tókst þeim erlendu að skora, en þar var að verki Todd Simpson eftir sendingar frá Daniel Kolar og Mirek Krivanek en auk þeirra þriggja eru í “powerplay” línunni hjá SR, Petr Krivanek og Gauti Þormóðsson. 

 

Á 9. mínútu leiksins lendum við aftur í því að spila tveimur mönnum færri og þá skoraði Daniel Kolar eftir sendingu frá Mirek Krivanek.  Nokkru síðar snérist dæmið við og Mirek Krivanek skoraði eftir sendingu frá Daniel Kolar og aðeins mínútu eftir það skoraði Mirek Krivanek 4. markið.  Staðan var þá orðin 4 – 1 og þrátt fyrir allar okkar tilraunir tókst illa að stöðva sóknir þessara erlendu leikmanna.

Í leikhléi tóku menn sig saman í andlitinu og rifjuðu upp það sem lagt var af stað með, þ.e. að halda aftur af útlendingunum.  Það gekk betur og lotuna unnum við 1 – 0 og eina markið kom í “powerplay” þegar Sigurður Sigurðsson skoraði úr frákasti eftir skot af bláu línunni frá Birki Árnasyni.  Annars var lotan mjög jöfn og það sama má segja um þá næstu, en hana unnu SR-ingar 1 – 0.  Mirek Krivanek sendi á Gauta Þormóðsson í “powereplay” sem fékk tíma til að taka tvo skot, þ.e. og skot og frákast.

Leikurinn endaði því með sigri þeirra sunnlensku, en það má ljóst vera að liðið er ekki ósigrandi.  Nú er að drífa sig aftur að teikniborðinu og leysa það sem leysa þarf og koma betur undirbúnir í næsta leik.  Hvert stig er nú dýrmætt ef SA ætlar að komast í úrslitakeppnina í ár.  Meðfylgjandi mynd er af tveimur bestu leikmönnum leiksins, þeim Jóni Gíslasyni og Gauta Þormóðssyni.  Myndina tók Margeir Örn Óskarsson.

Tölulegar upplýsingar hér að neðan eru fengnar í góðfúslegu leyfisleysi af heimasíðu ÍHÍ (www.ihi.is)

Mörk/stoðsendingar SR: Mirek Krivanek 2/3, Daniel Kolar 1/2, Gauti Þormóðsson 1/0, Todd Simpson 1/0.

Brottvikningar SR: 14 mín.   

 

Mörk/stoðsendingar SA: Einar Guðni Valentine 1/0, Sigurður Sigurðsson 1/0, Birkir Árnason 0/1, Guðmundur Guðmundsson 0/1.

Brottvikningar SA: 16 mín..