Sögulegur sigur á Esju 8:4

Víkingar fagna marki (mynd: Elvar Pálsson)
Víkingar fagna marki (mynd: Elvar Pálsson)

SA Víkingar báru sigurorð af Esju í gær í fyrsta sinn á heimavelli, lokatölur 8-4. Esja komu nokkuð þunnir til leiks en mikil meiðsli herja á þá um þessar mundir á meðan Víkingar hafa endurheimt nokkra leikmenn úr leikbanni og meiðslum og eru nú aðeins Sigurður Reynisson og Orri Blöndal á sjúkralista. Leikurinn bauð uppá flott hokkí, falleg mörk, stórar tæklingar og mikla hörku.

Víkingar byrjuðu leikinn af krafti og settu mikla pressu á mark Esju strax á upphafs mínútunum. Skotunum rigndi á markið og leikmenn Víkinga voru greinilega staðráðnir í því að setja pökkinn fyrstir í netið en það mátti oft sjá alla sóknarmenn Víkinga í grímunni á Styrmi markmanni Esjunnar. Fyrsta mark leiksins skoraði Ben Dimarco í powerplay þegar hann þrumaði pekkinum af bláu línunni í netmöskvana en Styrmir sá varla skotið þar sem það stóðu þrír víkingar framan við hann. Það tók Víkinga ekki langann tíma að setja annað markið en það skoraði Rúnar Freyr Rúnarsson eftir barning í sóknarsvæðinu sem endaði með því að pökkurinn barst á Rúnar í miðju sóknarsvæðinu sem þræddi pökkinn milli fóta Styrmis í markinu. Þriðja mark Víkinga í lotunni kom eftir góða pressu Víkinga í sóknarsvæðinu en Jay Le Blanc vann pökkinn af Esjunni og bar hann með harðfylgi aftur fyrir mark Esjunnar, kom honum á Sigurð Sigurðsson sem renndi sér ljúflega fram fyrir markið og setti pökkinn snyrtilega í fjærhornið en Gunnar Darri Sigurðsson var þá búinn að koma sér fram fyrir Styrmi í markinu sem sá varla skotið fremur en önnur skot í 1. Lotunni. Verðskulduð 3-0 forysta eftir fyrstu lotu.

Víkingar voru í nokkrum refsivandræðum í leiknum og tóku 3 tveggja mínútna dóma í fyrstu lotu, 4 í annarri og 4 í þeirri þriðju. Esjan nýtti sér þetta en fyrsta mark 2 lotu kom í powerplay þegar Kole Bryce skoraði skrautlegt mark er hann vippaði pekkinum fram fyrir markið þar sem hann skoppaði milli fóta Retts. Stuttu síðar skoruðu Víkingar álíka skrautlegt mark þegar Jón Benedikt Gíslason vippaði pekkinum nánast frá bláu að því er virtist í fang Styrmis en pökkurinn fann sér leið í markið. Strax í kjölfarið skoraði Ingþór Árnason mark frá bláu línunni eftir uppkast en hann skaut úlnliðskoti nákvæmlega í hornið fram hjá Styrmi en Einar Valentin byrgði honum sýn í markinu. Esjan skipti Styrmi út í markinu eftir þetta og inn kom Daníel Jóhannsson. Restin af lotunni einkenndist af brottvísunum en Esjan var í 6 mínútur í power play undir lok lotunnar en náðu ekki að nýta sér liðsmuninn.

Í upphafi þriðju lotu náðu víkingar flottri skyndisókn 4 á móti 2 þar sem pökkurinn gekk hratt á milli manna og Daníel varði að lokum vel skot Ben Dimarco en Rúnar Freyr Rúnarsson fylgdi fast á eftir frákasti úr hanska Daníels. Við þetta varð barningur framan við markið sem setti svolítið tóninn fyrir lotunna. Rúnar og Egill fengu sitthvorn dóminn og harkan í leiknum jókst upp frá þessu. Kristján Gunnlaugsson minnkaði muninn fyrir Esju eftir að hann stakk sér inn í sendingu milli varnarmanna Víkinga og komst einn gegn Rett og kláraði vel. Ben Dimarco svaraði með glæsilegu marki þar sem hann fékk sendingu frá Jóa Leifs í mitt sóknarsvæðið, hafði nægan tíma, fiskaði Daníel langt út úr markinu og lagði pökkinn í opið markið. Esjan svaraði að bragði eftir varnarmistök norðanmanna en Pétur Maack stal pekkinum framan við mark Víkinga og skoraði með snöggu skoti. Esjumenn fengu svo PowerPlay og nýttu það vel en Egill Þormóðsson skaut pekkinum frá bláu línunni sem átti viðkomu í kylfu Kole Bryce og í markið. Leikurinn allt í einu í járnum og nægur tími eftir á klukkunni fyrir Esju til þess að jafna. Þegar um 3 mínútur lifðu leiks átti Ingólfur Elísason varnartæklingu á leikmann Esju við bláu línuna á opnum ís og upp frá því hófst mikill darraðardans. Til þess að gera langa sögu stutta flugu 5 stórir dómar og Esjumenn búnir offra möguleikanum á sigri með sína bestu sóknarleikmenn í sturtu. Víkingar sigldu sigrinum heim með marki Jóa Leifs í opið mark og svo öðru marki frá Jóni B. Gíslasyni eftir fallega sendingu frá Sigurði Sigurðsyni inn fyrir vörnina.

Þetta var síðasti heimaleikur Víkinga fyrir áramót en þeir eiga einn útileik eftir á fyrri hluta tímabilsins en sá leikur fer fram í Egilshöll 29. nóvember gegn Bjarnarmönnum (22 stig) sem virðast á góðu skriði um þessar mundir. Víkingar (27 stig) náðu með sigrinum að auka forskot sitt á toppi deildarinnar í 5 en brekka er framundan hjá Esju sem sitja neðstir í deildinni með 11 stig.

Vídeó af leiknum má skoða hér

Tölfræði leiksins má skoða hér

Stöðuna í deildinn má skoða hér