Skellur á Heimavelli - Víkingar vs Esja 2:5

Frammistaða SA-Víkinga gegn Esjunni var ekki beysin fyrir framan hálftóma stúku í Skautahöllinni á Akureyri í gær. Lokatölur 2 - 5 Esjunni í vil. Esju-menn mætu grimmir til leiks og ljóst var frá upphafi að þeir myndu ekki gefa þumlung eftir á meðan Víkingar voru værukærir, og kannski aðeins um of, eftir góða byrjun í mótinu .

Esjan skoraði fyrsta mark leiksins eftir aðeins um mínútu leik þegar Kole Bryce nýtti sér lélega hreinsun úr varnarsvæði Víkinga og skaut lúmsku skoti af bláu línunni sem hrökk í mark Víkinga. Esjan lét þetta ekki nægja og hélt áfram að þjarma að marki Víkinga og pressuðu hátt en Víkingar áttu erfitt með að leysa hápressu Esjunnar. Eftir um 9 mínútna leik skoraði Ben Dimarco jöfnunarmark fyrir Víkinga eftir glæsilegan undirbúning Ingvars Jónssonar en Víkingar voru hættulegir í varnarsvæði Esjunnar þau fáu skipti sem þeir náðu þangað. Víkingar fengu 2 mínutna dóm skömmu síðar og Esjan nýtti sér liðsmuninn með marki frá Hirti Björnssyni. Skömmu síðar komst Esjan upp að endamörkum og sendu pökkinn fram fyrir mark Víkinga þar sem Egill Þormóðsson stóð einn og óvaldaður og kláraði færið líkt og hann er þekktur fyrir og staðan 1 - 3 verðskulduð forysta Esjunnar eftir fyrstu lotu.

Bæði lið hófu aðra lotuna með aðeins 4 menn á ísnum eftir að Jóhann Leifsson hafði fengið dóm á lokasekúndum 1. lotu fyrir að keyra niður markmann Esjunnar og Kole Bryce sömuleiðis fyrir að slá þann fyrnefnda í hnakkann á eftir. Hápressuvörn Esjunnar var enn að gera Víkingum erfitt fyrir en Esjan vann pökkin oft á hættulegum stöðum og fengu ágætis marktækifæri í kjölfarið á meðan Víkingar voru helst hættulegir meðan þeir héldu pekkinum í sóknarsvæðinu en uppspilið gekk illa. Um miðbik lotunnar stal skíðakappinn Sturla Snorrason pekkinum af aftasta varnarmanni Víkinga rétt framan við markið og skaut pekkinum snökkt upp í samskeytin. Liðin fengu svo sitthvorn dóminn í lok lotunnar en náðu illa að nýta sér liðsmuninn en undirmannaðar varnirnar voru vel skipulagðar. Staðan 1 - 4 eftir aðra lotu en Esjan hafði skapað sér mun fleiri hættuleg marktækifæri í lotunni.

Víkingar vöknuðu loks af slæmum draumi í 3. lotu og fóru loks að sækja almennilega upp völlinn á meðan Esjan var aðeins varkárari í sínum aðgerðum og þéttu vörnina aftar á vellinum. Esjan fékk brottvísun og Ben Dimarco var ekki lengi að nýta sér það þegar hann óð upp völlinn og skaut góðu skoti fram hjá varnarmanni Esjunnar sem Styrmir í markinu gat lítið við gert. Víkingar héldu uppi ágætis pressu eftir þetta og skutu oft á markið án þess að skapa sér dauðafæri en Esjan fékk mjög hættulegar skyndisóknir þess á milli og voru nokkuð oft nálægt því að refsa. Þannig leið lotann og Víkingar freistuðu þess að koma inn þriðja markinu og sendu 6. sóknarmanninn inn á völlinn með ómannað markið. Víkingar fengu nokkur góð færi en Styrmir stóð eins og klettur í markinu og Esjan náði loks að hreinsa pökkinn úr varnarsvæði sínu en þann pökk fann enginn annar en Egill Þormóðsson sem skoraði auðveldlega í tómt mark hjá Víkingum og lokatölur því 2 - 5.

Ljósi punkurinn í öllu er kannski sá að deildin hefur aldrei verið eins jöfn og spennandi en Víkingar eru ennþá efstir í deildinni með 13 stig en Esjan og SR fylgja fast á eftir með 9 stig en sterkt lið Bjarnarins situr í neðsta sætinu með 5 stig. Öll liðin eru vel mönnuð og leikirnir eftir því, en tímabilið er langt og mikið af skemmtilegu íshokkí framundan, svo njótið vel.