SA Víkingar lögðu SR í hörkuleik 3:2

Gunnar Darri Sigurðsson (mynd:Elvar Pálsson)
Gunnar Darri Sigurðsson (mynd:Elvar Pálsson)

Víkingar lögðu SR-inga að velli í Skautahöllinni á Akureyri um helgina, lokatölur 3-2. Leikurinn var jafn og spennandi en einkenndist af mikilli baráttu og mörgum brotum á kostnað fagurfræðinnar en þó sáust nokkur glæsileg tilþrif í leiknum.  

Leikinn er hægt að skoða hér og tölfæðina hér.

SA fengu fyrsta powerplayið eftir um 2 mínútna leik en misstu pökkinn klaufalega í uppspilinu og Robbie Sigurdsson stal pekkinum, óð upp völlinn og skoraði fyrsta mark leiksins. Víkingar áttu þá enn tæpa mínútu eftir af powerplayi en misstu aftur frá sér pökkinn og Robbie komst á ný einn á móti Rett í marki Víkinga sem varði að þessu sinni stórglæsilega og Víkingar heppnir að vera ekki 2 mörkum undir. Liðin skiptust á að sækja eftir þetta, Víkingar héldu pekkinum meira en SR voru hættulegir í sínum skyndisóknum. Undir lok lotunnar jafnaði Jón Benedikt Gíslason leikinn eftir fallegt spil Andra Más Mikaelssonar og Jóhanns Leifssonar sín á milli og staðan 1-1 eftir fyrstu lotu.

Margir dómar féllu í annarri lotunni en fyrsta markið skoraði Miroslav Racancky þar sem Robbie vippaði pekkinum yfir varnarlínu Víkinga og Miroslav stakk varnarmenn af í kapphlaupinu og smurði pökkinn glæsilega upp í markhornið. Víkingar reyndu hvað þeir gátu að jafna leikinn en náðu litlum takti þar sem þeir voru iðulega einum færri á ísnum vegna brota. Það kom þó stund þar sem þeir voru með jafn marga leikmenn á ísnum en þá skoraði Sigurður Reynisson eftir skyndisókn með hjálp frá Gunnari Darra og Ben Dimarco. Víkingar héldu áfram að brjóta af sér og voru færri á ísnum það sem eftir lifði lotunnar.

Víkingar hófu 3 lotuna í powerplay og komust yfir er 1 og  ½ mínúta var liðin af leikhlutanum þegar Ingþór Árnason skoraði með hörkuskoti frá bláu línunni. SR-ingar fengu 3 powerplay í beit í kjölfarið en náðu ekki að nýta sér liðsmuninn og Víkingar lönduðu sigri með mikilli baráttu. Víkingar vörðust vel lengst af í leiknum þrátt fyrir að vera manni færri og Rett varði vel í markinu og það skilaði 3 stigum öðru fremur. Víkingar juku því forskot sitt á hin liðin í deildinni en Björninn vann Esju á sama tíma í Laugardal og náðu öðru sætinu af SR og Esju. Næsti leikur Víkingar er næstkomandi helgi en þá tekur liðið á móti Esju í Skautahöllinni á Akureyri.