SA sótti 6 stig suður yfir heiðar

Skautafélag Akureyrar gerði góða ferð í borgina um helgina og náði sér í 6 mikilvæg stig í tveimur viðureignum við Skautafélag Reykjavíkur. 

SA hélt suður með þéttan leikmannahóp sem samanstóð af fjórum sóknarlínum og þremur varnarlínum.  Sæmundur Leifsson stóð vaktina á milli stanganna í fjarveru Ómars Smára Skúlasonar og til vara var Brynjar Friðleifsson, markmaður 3. flokks.

Fyrri leikurinn var á laugardagskvöldið og þá mættu sunnlendingarnir með fullskipað lið, ef undan er skilinn Stebbi rauði sem enn er meiddur.  Leikurinn var jafn í upphafi í og 1. lotunni höfðu SR-ingar yfirhöndina og unnu lotuna 2 – 1.  En mikið lengra komust þeir sunnlensku ekki því næstu tvær lotur voru gestanna, sem unnu 3 – 0 og 2 – 1, loka staðan því 6 – 3.   Sem fyrr voru Tékkarnir í SR, allt í öllu og nú kannski sem aldrei fyrr því þeir áttu öll stig SR í leiknum.  Hins vegar má leiða að því líkum að þeir hafi einnig orðið þeim að falli, því þeim var haldið á ísnum meiri hlutann af leiktímanum og höfðu einfaldlega ekki þrek í að klára leikinn.   SA hins vegar spilaði sem mest á þremur línum, þó vissulega hafi fyrstu tvær línurnar spilað meira en sú þriðja, en fjórða línan kom ekkert inná í þessum leik. 

Mörk og stoðsendingar


SA:  Jón Gíslason 2/1, Helgi Gunnlaugsson 2/0, Elvar Jónsteinsson 1/1, Björn Már Jakobsson 0/2, Sigurður Sigurðsson 0/2, Tomas Fiala 1/0, Jón Ingi Hallgrímsson 0/1, Einar Valentíne 0/1

SR:  Mirek Krivanek 2/1, Daniel Kolar 1/1, Petr Krivanek 1/0

 

Brottvísanir:


SA: 26 mín – 13 x 2ja mín dómar
SR: 43 mín – 4 x 2ja mín dómar, 1 x 10mín og 1 x 25mín.

Seinni leikurinn fór fram í býtið á sunnudeginum og þá höfðu orðið mannabreytingar á SR liðinu.  Eitthvað hafði hitnað í kolunum eftir tapleikinn á laugardaginn og m.a. var haldinn krísufundur, en slíkir fundir eru mikið tískufyrirbrigði um þessar mundir.  Ekkert bólaði á Tékkunum og SR-liðið mætti aðeins með 11 útileikmenn til leiks.  Þrátt fyrir fjarveru tékkneska tríósins var ekki hægt að merkja mikinn mun á liðinu frá deginum áður, nema hvað að almennt virtust menn skemmta sér betur á ísnum.  Það skilaði liðinu þó ekki stigi og SA vann frekar þægilegan 7 – 3 sigur á liðinu og tókst m.a. að spila á fullum fjórum framlínum alla 3. lotuna, og á þremur línum fyrstu tvær loturnar.  Það var jafnframt mikilvægt að hafa óþreytta menn, því sumir voru stirðir eftir laugardagsleikinn.  Reyndar áttu SR-ingar ýmsa óþreytta leikmenn líka því sumir höfðu fylgst að mestu með leik Tékkanna af varamannabekknum daginn áður.

SA vann 1. lotuna 1 – 0 og 2. lotu 6 – 2 en tapaði þeirri síðustu 0 – 1.  Lokatölur 7 – 3 og þriðji sigurinn á SR í röð staðreynd.  SA hefur þá unnið fjóra síðustu leiki sína og hefur með því heldur betur snúið við blaðinu og flutt sig af botni deildarinnar alla leið upp á topp og hefur nú 14 stig.

Liðið spilaði allt vel um helgina og flestir hlutir sem þurfa að vera í lagi, voru í  lagi.  “Power play-ið” hrökk loksins gang og 1. línan sem jafnframt er aðal-pp-línan setti nokkur falleg mörk eftir gott samspil.  “Penalty kill” gekk sömuleiðis mjög vel og oft voru SR-ingar í stökustu vandræðum með að komast út úr sínu eigin varnarsvæði.

Að öðrum leikmönnum ólöstuðum þá sýndi Jón Gíslason það og sannaði um helgina að hann ber höfuð og herðar yfir aðra leikmenn í deildinni (myndlíking), jafnt innlenda sem erlenda og óhætt að segja að hann hafi verið óstöðvandi.  Hvað eftir annað lék hann varnarmenn gestgjafanna grátt og einhvern veginn virka aðrir leikmenn hálf klunnalegir í kringum hann.   Fyrsta lína með þá Jón, Fiala og Jón Inga í sókninni og Bjössa og Birki í vörninni er ekki árennileg með sinn hraða og tækni.  Önnur lína er hins vegar sett saman af nokkrum gömlum lömpum með margra ára reynslu á bakinu og nokkur aukakíló á vömbinni en talnaglöggir gárungar telja sig hafa reiknað það út að línan vegi um hálft tonn að þyngd... og hraðinn eftir því.  Þriðja og fjórða línan er hins vega skipuð ungum og bráð efnilegum leikmönnum sem koma mjög sterkir og ferskir inn á ögurstundum og spila sífellt stærri rullu í liðinu.

Mörk og stoðsendingar:


SA:  Jón Gíslason 2/3, Tomas Fiala 2/1, Birkir Árnason 1/1, Björn Már Jakobsson 0/2, Sigurður Árnason 1/0, Jón Ingi Hallgrímsson 1/0, Sigurður Sigurðsson 0/1.

SR: Gauti Þormóðsson 2/1, Pétur Maack 1/0, Todd Simpson 0/1, Þorsteinn Björnsson 0/1, Guðmundur Björgvinsson 0/1.

Stemningin í liðinu er góð og gamli SA sigurviljinn, þrautseigjan og baráttan hefur verið endurvakin af Sveini Björnssyni þjálfara.  Liðið styrkist með hverjum leik og hefur nú heldur betur stimplað sig að nýju inn í  deildina og ef einhver er búinn að gleyma því - þá á dollan heima á Akureyri, Mekka íshokkís á Íslandi!

 

Myndin er af Jóni Gíslasyni og er úr safni Margeirs myndasmiðs.