SA - Björninn; 8 - 5

Í gærkvöldi vann Skautafélag Akureyrar frækinn sigur á Birninum í mfl karla.

Leikurinn hófst með miklum látum og hinn nýi tékkneski leikmaður SA, Tomas Fiala tékkaði sig inn í deildina á 22. sekúndu leiksins þegar hann skoraði fyrsta markið í sinni fyrstu snertingu.  Það er vart hægt að biðja um betri byrjun hjá nýju liði.  En Adam var ekki lengi í paradís (eða jesús var ekki lengi í paradís eins og Heiðar Gestur sagði hér um árið) því Daði Örn Heimisson jafnaði leikinn fyrir Björninn aðeins mínútu síðar eftir sendingar frá Brynjari Þórðarsyni og Bergi Einarssyni.  

Það er óhætt að segja að mikið líf hafi verið í tuskunum á fyrstu mínútum leiksins því Jón Ingi Hallgrímsson kom SA aftur yfir aðeins nokkrum sekúndum eftir jöfnunar markið, og skoraði þar sitt fyrsta mark af þremur í leiknum.  Þrátt fyrir snarpar sóknir á báða bóga urðu mörkin ekki fleiri í lotunni.

Sergei Zak jafnaði leikinn fyrir gestina strax á 4. mínútu lotunnar, en á 34. mínútu leiksins skoruðu heimamenn tvö mörk.  Fyrra markið átti Jón Gíslason sem komst einn í gegn eftir góða sendingu frá Jóni Inga og setti pökkinn niðri hægra megin á Ala-Lathi í marki Bjarnarmanna.  Seinna markið skoraði svo Sigurður Sigurðsson eftir sendingar frá Elvari Jónsteinssyni og hinum unga og efnilega Andra Mikaelssyni.

Þessi forysta var þó skammgóður vermir því á 36. mínútu skoruðu Bjarnarmenn með 13. sekúndna millibili og jöfnuðu leikinn enn á ný.  Fyrra markið átti Sergei óstuddur en það seinna átti Brynjar Þórðarson eftir góða stungusendingu frá Óla Gunnarssyni upp miðjuna þar sem Binni stakk sér í gegnum SA vörnina og sett´ann upp í bláhornið fram hjá Ómari Smára í markinu.  Skömmu síðar náði Sigurður Sigurðsson aftur forystunni fyrir SA eftir sendingar frá “Nörfunum” Héðni Björnssyni (sem n.b. á 41 árs afmæli síðar í þessum mánuði) og Elvari Jónsteinssyni.

Staða var því orðin 5 – 4 þegar þriðja og síðasta lotan hófst og enn var allt í járnum.  Í síðustu lotunni er skemmst frá því að segja að 1. lína SA fór á kostum og sýndi allar sínar bestu hliðar með hröðu og útsjónarsömu spili.  Jón Ingi Hallgrímsson skoraði tvö mörk og átti lagði upp eitt fyrir Jón Gíslason og Tomas Fiala lagði upp annað mark Jóns Inga.  Það er ljós að Tomas styrkir liðið mikið og sérstaklega má sjá gjörbreytingu á 1. línu og ánægjulegt að sjá hve vel framlínan nær saman með þeim Jóni G og Jóni I auk Tomasar.  Í vörninni hjá þeim eru svo þeir Birkir Árnason og Björn Már Jakobsson.

Bjarnarmenn klóruðu aðeins í bakkann þegar um 15  sek voru eftir af leiknum en þar var að verki nýjasti leikmaður Bjarnarins, hinn pólski Marcin Diakow eftir sendingu frá hinum ný-íslenska Sergei Zak.

Leiknum lauk því með sigri Skautafélags Akureyrar með 8 mörkum gegn 5.  Þessi stig voru okkur mjög nauðsynleg eftir heldur brokkgengt gengi í upphafi tímabils.  Betur má þó ef duga skal og um næstu helgi mætum við SR-ingum og næsta víst að þeir munu ekki ríða feitum hesti frá þeirri viðureign.

Mörk og stoðsendingar
SA:  Jón Ingi Hallgrímsson 3/1, Tomas Fiala 1/2, Jón Gíslason 2/0, Sigurður Sigurðsson 2/0, Elvar Jónsteinsson 0/2, Héðinn Björnsson 0/1, Andri Mikaelsson 0/1

Björninn:  Sergei Zak 2/1, Brynjar Þórðarson 1/1, Daði Örn Heimisson 1/0, Marcin Diakow 1/0,  Óli Þór Gunnarsson 0/1, Bergur Árni Einarsson.

Brottvísanir
SA:  16 mín
Björninn:  22 mín