Ósigur gegn Birninum á heimavelli

Á sunnudaginn gerðum við okkur lítið fyrir og töpuðum fyrir Birninum á heimavelli, en það hefur ekki gerst í áraraðir.  Þrátt fyrir allt áttum við ágætan leik og fjöldi skota á markið segir allt sem segja þarf því á meðan við áttum 40 skot á mark Bjarnarmanna áttu þeir aðeins 16 á okkar mark, en nýttu færin sín hins vega mjög vel.  Það er því ljóst að vinnum ekki leiki með 69% markvörslu og ekkert annað í stöðunni en að endurskipuleggja varnarleikinn og senda markmennina til Síberíu.

Samsetning liðsins var með nýju sniði að þessu sinni en við höfum nú heimt úr helju bæði Jón Gíslason og Josh Gribben sem hafa verið fjarri góðu gamni þorra tímabilsins.  Einhver hörgull var á varnarmönnum og því greip þjálfarinn til þess örþrifaráðs að setja Rúnar Rúnarsson í vörnina...  já ég sagði Rúnar Rúnarsson.  Það hitti vel á vondan því hann hefur aldrei, svo vitað sé, látið sjá sig í varnarsvæðinu fram að þessu og því var hann alveg á nýjum slóðum í leiknum.  Hann nýtti hins vegar hið nýja hlutverk mjög vel og gerði sér lítið fyrir og skoraði þrjú mörk frá bláu línunni og úr slottinu.  Þótti hann minna töluvert á tvíburabróður sinn Daniel Kolar þeirra sunnanmanna.

Ekki veitti af hjálpinni í markaskoruninni því fyrir utan þrennuna hans Rúnars var það Orri Blöndal sem setti eitt mark og af því má ráða að eitthvað þurfi einnig að fara yfir sóknarleikinn.  Það má hins vegar hrósa Bjarnarmönnum fyrir sinn leik, þeir hafa vaxið að undanförnu og spila nú að meira sjálfsöryggi en áður.  Þeir fara inn í jólafrí með því að sigra bæði SA og SR á aðventunni og nú hefur komið upp sú staða, sem ekki er mjög algeng, að allir hafa unnið alla. 

Nú kemur svo smá hlé í Íslandsmótið á meðan U20 ára landsliðið keppir á HM á Tyrklandi en keppni hefst svo að nýju þann 16. janúar hérna heima þegar SR-ingar sækja okkur heim.