Öruggur sigur á SR, en ekki auðveldur


Víkingar sigruðu SR-inga í mfl. karla á Íslandsmótinu í íshokkí í kvöld, 4-1. Víkingar eru einu stigi á eftir Birninum eftir 11 leiki.

SR-ingar komu heldur fáskipaðir norður, voru með alls 11 leikmenn á skýrslu, og því töldu einhverjir að um auðveldan sigur yrði að ræða hjá Víkingum. Sigurinn var ekki auðveldir, en nokkuð öruggur þó.

Víkingar sóttu enda strax mun meira en lið SR, áttu til að mynda 26 skot á mark í fyrsta leikhluta á móti fimm skotum frá gestunum. En fjöldi marka var ekki í samræmi við þessar tölur. Víkingar komust þó í 2-0 í fyrsta leikhluta. Fyrst skoraði Ben DiMarco eftir um átta mínútna leik og svo Ingólfur Tryggvi Elíasson alveg í lok leikhlutans.

Snemma í öðrum leikhluta minnkuðu gestirnir muninn, en undir lokin komust Víkingar aftur í tveggja marka forystu með marki Jóhanns Más Leifssonar. Verðandi Old boys markvörður, Björn Már Jakobsson, kom svo Víkingum í 4-1 með marki snemma í þriðja leikhlutanum.

Í þriðja og síðasta leikhlutanum létu mörkin hins vegar á sér standa og lokatölur: Víkingar - SR 4-1 (2-0, 1-1, 1-0). 

Atvikalýsing (ÍHÍ).

Mörk/stoðsendingar
Víkingar 
Jóhann Már Leifsson 1/1
Ben DiMarco 1/0
Björn Már Jakobsson 1/0
Ingólfur Tryggvi Elíasson 1/0
Stefán Hrafnsson 0/2 
Andri Freyr Sverrisson 0/1
Gunnar Darri Sigurðsson 0/1
Orri Blöndal 0/1
Refsimínútur: 8
Varin skot: 9

SR
Pétur Maack 1/0
Zdenek Prchaska 0/1 
Refsimínútur: 8
Varin skot: 34

Með sigrinum eru Víkingar einu stigi á eftir Birninum, en bæði lið hafa leikið 11 leiki. Næsti leikur  Víkinga verður gegn SR í Laugardalnum laugardaginn 1. febrúar. Næsti leikur Jötna verður gegn Húnum í Egilshöllinni laugardaginn 25. janúar.

Næsti leikur í meistaraflokki karla í Skautahöllinni á Akureyri verður hins vegar ekki fyrr en þriðjudagskvöldið 18. febrúar þegar Bjarnarmenn heimsækja Víkinga.