Nýársmótið: Stórir sigrar

Garpar skelltu Mammútum, nýliðar upplifðu stóran sigur.

Fyrsta umferð Nýársmótsins fór fram í gærkvöldi. Þokkaleg mæting var en hefði mátt vera meiri. Alls náðist í fjögur lið, Garpar og Mammútar mættust annars vegar og hins vegar tvö lið þar sem liðsmenn voru dregnir saman. Tvær af þeim sem mættu á fyrsta kvöld kvennaátaksins "Á svellið stelpur!" ákváðu að skella sér strax í keppnina og fengu að upplifa stóran sigur.

Eins og áður hefur komið fram er mótið blandað þannig að þegar liðin sem leika í Íslandsmótinu ná nógu mörgum leikmönnum þá spila þau sem slík en aðrir leikmenn eru dregnir saman í lið. Þannig náðu Garpar og Mammútar saman sínum liðum í fyrstu umferðinni og fór drátturinn þannig að þessi lið léku saman. Garpar gjörsigruðu Mammúta í þessum leik, unnu allar umferðir leiksins og lokatölurnar 12-0. Hins vegar áttust við tvö lið þar sem leikmenn voru dregnir saman. Annars vegar vour það Davíð Valsson, Kristján Þorkelsson, Ásta Jónsdóttir og Vala Jóhannsdóttir og hins vegar Rúnar Steingrímsson, Svanfríður Sigurðardóttir og Jón G. Rögnvaldsson. Þarna vannst stór sigur eins og í hinum leiknum, fyrrnefnda liðið, sem innihélt tvo nýliða, þær Ástu og Völu, sigraði 9-1.

Efstir á mótinu eftir fyrstu umferðina eru því Garparnir Hallgrímur Valsson, Gunnar H. Jóhannesson, Ólafur Hreinsson og Kristján Bjarnason með 34 stig, næst koma þau Davíð, Kristján Þorkelsson, Ásta og Vala með 29. 

Næsta umferð verður mánudaginn 10. janúar og verður sami háttur hafður á. Þau lið sem ná að minnsta kosti þremur leikmönnum leika sem slík en aðrir sem mæta verða dregnir saman í lið. Liðum verður síðan raðað í leiki miðað við stigafjölda þeirra leikmanna sem leika hverju sinni þannig að tvö stigahæstu "liðin" eigast við og svo koll af kolli.