Nýársmót Krulludeildar: Ólafur Hreinsson á toppinn

Ófærð hafði áhrif á þátttökuna í annarri umferð mótsins.

Því miður varð ófærð til þess að ekki komust allir sem ætluðu en þó náðist í fjögur lið, alls fjórtán keppendur. Aðeins Garpar og Mammútar mættu með nógu marga leikmenn í kvöld til að ná í lið en aðrir keppendur voru dregnir saman í lið, þeirra á meðal glænýir iðkendur sem komið hafa inn í krulluna í gegnum átakið "Á svellið stelpur!". Ein af þeim sem mætti í kvöld var að koma í sinn fyrsta tíma og var gripin beint í keppni en tvær voru "vanar", höfðu mætt tvisvar áður. Garpar og Mammútar léku saman, þó svo liðin hafi leikið í fyrstu umferðinni, aðallega til að þessir nýju iðkendur yrðu dregnir í lið sem myndu mæta hvort öðru. Garpar höfðu yfirhöndina lengst af í leiknum gegn Mammútum en í síðustu umferðinni tókst Mammútum að skora þrjá steina og jafna leikinn. Garpar fengu þó 18 stig en Mammútar 14 þar sem Garpar unnu fleiri umferðir. Hin viðureign kvöldsins var á milli blandaðra liða, annars vegar voru Davíð Valsson, Ólafur Hreinsson, Heiðdís B. Karlsdóttir og Steinunn Kr. Ævarsdóttir en í hinu liðinu voru Kristján Þorkelsson, Rúnar Steingrímsson og Díana Hermannsdóttir. Fyrrnefnda liðið sigraði, 8-2 í steinum talið, en 28-4 í stigum talið.

Ólafur Hreinsson er þá orðinn einn efstur, eftir góðan sigur með Görpum í fyrstu umferð og svo þennan sigur í kvöld, er með 31 stig að meðaltali. Næstar koma Vala Jóhannsdótitr og Ásta Jónsdóttir með 29 stig (úr einum leik) og síðan Davíð Valsson með 28,5 stiga meðaltal úr tveimur leikjum.

Næsta umferð mótsins fer fram miðvikudagskvöldið 12. janúar og er ástæða til að bnda þeim konum sem komið hafa og prófað krullu í fyrsta skipti núna í janúar að þær eru jafnvelkomnar í þetta mót og aðrir keppendur. Með því að skella sér beint í skemmtilega keppni ná margir fljótt nokkuð góðum tökum á íþróttinni.