Magga Finns mótið um helgina

Davíð tekur við bikarnum.
Davíð tekur við bikarnum.


Hið árlega minningarmót um Magnus E. Finnsson, þar sem eldri/heldri leikmenn reyna með sér í íshokkí, fer fram um helgina.

Mótið hófst reyndar með einvíginu um Innbæinn sl. miðvikudagskvöld þar sem lið SA og Team Helgi mættust. Nokkuð gegn gangi leiksins komst SA í 2-0, og svo 3-1. Undir lokin minnkaði Team Helgi muninn í 3-2 og því hljóp nokkur spenna í leikinn á lokamínútunum.

Þrátt fyrir góðar tilraunir liðsfélaga Helga tókst SA-mönnum að halda forystunni þar til Zamboni-flautan gall. Já, Zamboni-flautan fékk á dögunum nýtt hlutverk þegar standard-lúður húsklukkunnar söng sitt síðasta (bókstaflega) og hugmyndaríkir menn rifu flautuna úr Zamboni og tengdu við klukkuna. En Zamboni getur huggað sig við það að stóra klukkulúðursmálið er komið í ferli og vonandi verður nýr lúður vígður á næsta heimaleik í meistaraflokki 18. febrúar og Zamboni fær aftur sinn hjáróma lúður til skemmtunar fyrir hefilstjórann.

En aftur að aðalatriðinu: Magga Finns mótinu. Því verður framhaldið strax að loknu skautadiskóinu í kvöld. Team Gulli og SR mætast og hefst leikurinn kl. 21.15. 

Sex lið taka þátt í mótinu og verður leikið í einum riðli, allir við alla. Reglur mótsins, leikjadagskrá og tímasetningar eru í pdf-skjali - hér.