Magga Finns Bikarmót Krulludeildar


Ákveðið hefur verið að breyta um nafn á Bikarmóti Krulludeildar og heiðra þannig minningu fyrrum krullumanns og formanns SA, Magnúsar Einars Finnsonar.

Magnús stundaði íshokkí af krafti um árabil. Íshokkídeild SA og Old Boys hafa árlega staðið fyrir Magga Finns mótinu í íshokkí í lok janúar eða byrjun febrúar og verður svo áfram. Um þessar mundir er jafnframt unnið að úthlutunarreglum fyrir minningarsjóð Um Magnús Einar Finnsson og verður nánar sagt frá þeirri vinnu fljótlega.

Færri vita ef til vill að Maggi spilaði einnig krullu í nokkur ár og vill stjórn Krulludeildar heiðra minningu hans og hefur því ákveðið að hið árlega Bikarmót Krulludeildar, sem yfirleitt fer fram í desember, muni hér eftir verða minningarmót um Magnús. Er þetta gert að höfðu samráði við syni Magnúsar og mun mótið hér eftir heita "Magga Finns Bikarmót Krulludeildar".

Síðasta krullumótið sem Maggi tók þátt í var Gimli Cup haustið 2004. Eins og sjá má á myndinni sem fylgir þessari frétt unnu Maggi og liðsfélagar hans í Görpum þetta mót. Það var í september 2004, en Magnús lést þann 13. febrúar 2005.

Veturinn 2004-2005 var mikil gróska í krullunni og kraftur í mótahaldi. Haustið 2004 var Akureyrarmótið haldið í fyrsta skipti og svo Bikarmót Krulludeildar í desember sama ár, en Maggi gat þá ekki verið með.

Svo skemmtilega vill til að Garpar unnu einmitt fyrsta Bikarmótið og að sjálfsögðu tilheyrði Maggi þá enn liðinu þó svo heilsan hafi komið í veg fyrir að hann gæti verið með í því móti. Þó svo mótið hafi heitið "Bikarmót" voru bara verðlaunapeningar í boði, enginn bikar. Í desember 2005, þegar Bikarmót Krulludeildar var haldið í annað sinn, gáfu Garpar síðan bikar til minningar um látinn liðsfélaga og hefur verið keppt um þann bikar á hverju ári síðan. Með Bikarmótinu hefur Krulludeildin því í raun heiðrað minningu Magga, en nú stígum við eitt skref til viðbótar og breytum nafni mótsins.

Garpar unnu ekki bara fyrsta Bikarmótið heldur eru þeir sigursælasta lið í sögu þessa móts, hafa unnið það oftar en ekki - alls fimm sinnum af þeim níu skiptum sem mótið hefur farið fram, eins og sjá má á þessari töflu: 

Ár Gull Silfur
2004 Garpar Víkingar
2005 Fálkar Skytturnar
2006 Garpar Norðan 12
2007 Skytturnar Fífurnar
2008 Svarta gengið Riddarar
2009 Garpar Fífurnar
2010 Garpar Fálkar
2011 Víkingar Ís-lendingar
2012 Garpar Skytturnar
2013  ?


Skráningu lýkur í dag - mótið hefst 4. desember
Eins og áður hefur komið fram hér á vefnum hefst Magga Finns Bikarmót Krulludeildar miðvikudagskvöldið 4. desember. Tekið er við skráningum í netfanginu haralduringolfsson@gmail.com og síma 824 2778 - en einnig á staðnum í kvöld fyrir krullutímann, en þá verður jafnframt dregið til fyrstu umferðar. Undanúrslit mótsins fara fram miðvikudagskvöldið 11. desember og úrslitaleikur mánudagskvöldið 16. desember.