Leiknum lauk með sigri Víkinga 6 - 1

Fögnuður:  Ljósmynd Elvar Pálsson
Fögnuður: Ljósmynd Elvar Pálsson

Víkingar náðu þriggja stiga forskoti á toppi deildarinnar með góðum 6 - 1 sigri á SR hér í Skautahöllinni á Akureyri í kvöld.  Fyrir þennan leik var ljóst að þessi tvö lið munu mætast í úrslitum í byrjun mars og því ætluðu bæði lið að gefa tóninn fyrir það sem koma skal.  Einhver taugatitringur var í mönnum í upphafi leiks og leikurinn fór varla almennilega af stað fyrr enn í 2. lotu.  1. lota var markalaus en 2. lota byrjaði af miklum krafti.


Í byrjunar uppkastinu barst pökkurinn til Andra Más sem sló pekkinum aftur til Ingvars í vörninni sem sendi fasta stungu á Rúnar Rúnarsson á fjær bláu sem stakk sér eins og elding upp að marki og lék Ævar grátt í markinu.  Þarna voru aðeins liðnar 11 sekúndur af lotunni en á 28. mínútu jafnaði Tómas Tjörvi með aðstoð Þormóðssona.  Aðeins þremur mínútum síðar kom sigurmarkið hjá Víkingum og óhætt að segja að það hafi verið „einstaklega glæsilegt“, dularfullur slöngvu floppari utan af miðjum velli sem rétt slapp við að lenda í loftljósunum áður en hann skoppaði fyrir framan markið og inn í netið á meðan Ævar var að borða nestið sitt, algerlega óviðbúinn þessari himnasendingu.  Staðan 2 – 1 og þannig lauk 2. lotu.

3. lota var lota Víkinganna, sem sigldu yfir lánlausa sunnlendingana og bættu við fjórum mörkum áður en lokaflautan gall.  Jóhann Leifsson átti 3. markið eftir að hafa slegið niður háa sendingu frá Ingvari Jóns (heppinn að fá ekki „high stick“), slapp einn í gegn og skoraði af öryggi.   Næsta mark kom aðeins mínútu síðar þegar markvörður SR-inga hreinsaði klaufalega í sinn eigin varnarmann þannig að pökkurinn datt óvænt við fætur Jóns Gísla, sem afgreiddi pökkinn auðveldlega í netið.  5. markið átti Rúnar Rúnarsson þar sem Jón Gísla vann mikla vinnu í kringum mark SR áður enn hann laumaði pekkinum í slottið til Rúnars sem nýtti tækifærði vel.  Aðeins 10 sekúndum síðar skoraði Sigurður Sigurðsson síðasta mark leiksins – lokastaðan 6 – 1.

Leikurinn vannst í þriðju lotu en það munar mikið um það að spila á rúmum þremur línum allan tímann sem gefur næga orku í lokin þegar hennar er mest þörf.  SR spilar á færri mönnum og það tekur sinn toll en auk þess var markvörður liðsins, Ævar Björnsson, einstaklega óheppinn í kvöld en hann er venjulega þeirra besti leikmaður.    Besti leikmaður Víkinga var hins vegar markvörðurinn Ómar Smári Skúlason sem varði oft meistaralega og stoppaði allar hættulegustu sóknir gestanna. 


Dómarar leiksins voru Viðar Garðarsson og Orri Sigmarsson – ungur nemur gamall temur.  Þeir stóðu sig ágætlega í leiknum en okkur þótti halla á okkar menn en Víkingar fengu aðeins eitt power play í leiknum sem verður að teljast í sérstakara lagi.  Eini dómurinn sem gestirnir fengu var vegna ólöglegs búnaðar, en í öllum öðrum brottvísunum SR-inga var einn Víkingur sendur með.  Hins vegar kemur tveggja dómarakerfið vel út og virðist það veita dómurum aukið sjálfsöryggi.  Sömuleiðis er mjög ánægjulegt að einn leikur geti liðið án þess að stórir dómar falli en þeir eru allt of tíðir í þessari deild.

Mörk/stoðsendingar

Víkingar:
Sigurður S. Sigurðsson 2/0
Rúnar F. Rúnarsson  2/0
Jón B. Gíslason 1/1
Jóhann Leifsson 1/0
Ingvar Þ. Jónsson 0/2
Andri Már Mikaelsson 0/1
Orri Blöndal 0/1

Brottrekstrar Víkingar: 20 mín

SR
Tómas T. Ómarsson 1/0
Egill Þormóðsson 0/1
Gauti Þormóðsson 0/1

Brottrekstrar SR: 10 mínútur