Jötnar lágu gegn Birninum - hokkíveisla um komandi helgi

Mynd: Ásgrímur Ágústsson (03.09.2013)
Mynd: Ásgrímur Ágústsson (03.09.2013)


Jötnar töpuðu gegn Birninum á Íslandsmótinu í íshokkí karla á þriðjudagskvöldið. Framundan er hokkíveisla á Akureyri um helgina.

Bandaríkjamennirnir tveir sem SA hefur fengið til liðs við sig höfðu aðeins verið hér í örfáa daga þegar þeir fengu smjörþefinn af íslensku íhokkí. Þeir settu báðir mark sitt á leikinn gegn Birninum. Markvörðurinn, Rett Vossler, fékk á sig mikla skothríð í marki Jötna, alls 65 skot og varði 58 þeirra. Ben DiMarco skoraði seinna mark Jötna.

Björninn komst í 2-0 í fyrsta leikhluta, en Jötnar minnkuðu muninn undir lok leikhlutans. Aftur náðu Bjarnarmenn tveggja marka forystu í öðrum leikhluta og aftur minnkuðu Jötnar muninn með marki undir lok leikhlutans. Í þriðja leikhlutanum voru það hins vegar bara Bjarnarmenn sem skoruðu og úrslitin: Björninn – Jötnar 7-2 (2-1, 2-1, 3-0).

Leikskýrslan (á vef ÍHÍ)

Mörk/stoðsendingar

Björninn
Lars Foder 3/0
Falur Birkir Guðnason 1/1
Brynjar Bergmann 1/1
Daniel Kolar 1/1
Jón Árni Árnason 1/0
Andri Már Helgason 0/2
Úlfar Jón Andrésson 0/1
Gunnar Guðmundsson 0/1
Varin skot: 26
Refsimínútur: 8

Jötnar
Ingþór Árnason 1/0
Ben DiMarco 1/0
Jóhann Leifsson 0/1
Róbert Guðnason 0/1
Varin skot: 58
Refsimínútur: 8

Framundan er hokkíveisla í Skautahöllinni á Akureyri á laugardaginn, bæði karla- og kvennaleikur í boði. Fyrst mætast karlalið Víkinga og Húna kl. 16.30. Aðgangseyrir er 1.000 krónur, en frítt fyrir 16 ára og yngri. Að loknum karlaleiknum, eða um kl. 19.00, mætast síðan SA og Björninn í meistaraflokki kvenna. Frítt er inn á þann leik.

Í æfingatímum hokkídeildarinnar verður reyndar einnig hokkíveisla því fyrsta innanfélagsmót haustsins verður núna um helgina. Nánar um það í annarri frétt.

Vakin er athygli á því að almenningstími styttist á laugardaginn vegna hokkíleikjanna, opið verður kl. 13-16, ekki 13-17 eins og venjulega.