Jakob í fimmta sæti í kjöri íþróttamanns Akureyrar

5 efstu í kjöri íþróttakonu og íþróttakarls Akureyrar 2023. Mynd Þórir Tryggvason.
5 efstu í kjöri íþróttakonu og íþróttakarls Akureyrar 2023. Mynd Þórir Tryggvason.

Kjöri íþróttamanns Akureyrar 2023 var lýst á Íþróttahátíð Akureyrar á vegum Íþróttabandalags Akureyrar og fræðslu- og lýðheilsuráðs Akureyrarbæjar sem fram fór í Menningarhúsinu Hofi á miðvikudagskvöld. Íshokkíkappinn Jakob Ernfeldt Jóhannesson varð fimmti í kjörinu um íþróttakarl Akureyrar 2023. Hlauparinn Baldvin Þór Magnússon úr UFA er íþróttakarl Akureyrar 2023 og knattspyrnukonan Sandra María Jessen hjá Þór/KA er íþróttakona Akureyrar 2023. Í öðru sæti voru þau Hallgrímur Mar Steingrímsson knattspyrnumaður í KA og Helena Kristín Gunnarsdóttir blakkona í KA. Í þriðja sæti voru Alex Cambray Orrason lyftingamaður í KA og Hafdís Sigurðardóttir hjólreiðakona hjá HFA. 

Á hátíðinni veitti fræðslu- og lýðheilsuráð viðurkenningar til 12 aðildarfélaga ÍBA vegna 361 Íslandsmeistara á síðasta ári en þar af átti Skautafélag Akureyrar 95 og 45 landsliðsmenn. Afrekssjóður veitti 9 afreksefnum styrki þar á meðal voru íshokkíkonurnar Silvía Rán Björgvinsdóttir og Amanda Bjarnadóttir. 

Á athöfninni veitti fræðslu- og lýðheilsuráðs Akureyrarbæjar sex öflugum einstaklingum viðurkenningar fyrir vel unnin störf í þágu félags-, íþrótta- og æskulýðsmála á Akureyri. Þau sem hlutu heiðursviðurkenningu í ár voru Dan Jens Brynjarsson (Skíðafélag Akureyrar), Fylkir Þór Guðmundsson (Íþróttafélagið Eik), Jóhann Gunnar Bjarnason (Knattspyrnufélag Akureyrar), Unnur Kristjánsdóttir (Sundfélagið Óðinn), Þórir Tryggvason (sjálfboðaliði og ljósmyndari) og Þórunn Sigurðardóttir (Íþróttafélagið Þór).

Skautafélag Akureyrar óskar íþróttafólkinu öllu sem og öðrum viðurkenningarhöfum til hamingju með kjörið en einnig Íþróttabandalagi Akureyrar og fræðslu- og lýðheilsuráði sem hafa veg og vanda af þessari flottru íþróttahátíð.