SA Íslandsmeistarar!

Myndir: Elvar Freyr Pálsson
Myndir: Elvar Freyr Pálsson


Lið SA sigraði lið Bjarnarins með fimm mörkum gegn engu í öðrum úrslitaleik liðanna á Íslandsmóti kvenna í íshokkí í kvöld og tryggði sér þar með Íslandsmeistaratitilinn í 13. sinn.

Lið SA var sterkara frá byrjun og hafði yfir meiri breidd að ráða. Mikilvægt var að ná að skora snemma, en þrátt fyrir ákafa sókn í fyrsta leiknum syðra á fimmtudagskvöldið létu mörkin standa á sér. Það var því nokkru fargi létt af liðinu þegar Anna Sonja Ágústsdóttir skoraði eftir tæplega fjögurra mínútna leik. Seint í fyrsta leikhlutanum bætti svo Sarah Smiley við örðu marki og þrátt fyrir ákafa sókn stóðu leikar þannig alveg fram í upphaf þriðja leikhluta. Anna Sonja skoraði þá sitt annað mark og kom SA í 3-0, Bergþóra Heiðbjört Bergþórsdóttir skoraði fjórða markið þegar um korter var eftir af leiknum og svo kórónaði fyrirliðinn Kristín Björg Jónsdóttir sigurinn með fimmta marki SA fjórum mínútum fyrir leikslok.

Öruggur sigur SA og sætur að auki eftir að liðið missti af deildarmeistaratitlinum í hendur Bjarnarins á dögunum. Úrslitin: SA - Björninn 5-0 (2-0, 0-0, 3-0).

Mörk/stoðsendingar
SA
Anna Sonja Ágústsdóttir 2/0
Sarah Smiley 1/3
Bergþóra Heiðbjört Bergþórsdóttir 1/0
Kristín Björg Jónsdóttir 1/0
Sunna Björgvinsdóttir 0/2
Ragnhildur Helga Kjartansdóttir 0/1
Refsimínútur: 14
Varin skot: 10

Björninn
Refsimínútur: 8
Varin skot: 44 

Umfjöllun mbl.is  - viðtal mbl.is við Kristínu Björgu fyrirliða