Íshokkífólk ársins

Jón Gíslason og Guðrún Blöndal á ísnum.
Jón Gíslason og Guðrún Blöndal á ísnum.
Stjórn Íshokkísambands Íslands valdi á dögunum íshokkífólk árins 2010.  Að þessu sinni verðum við þeirrar ánægju aðnjótandi að báðir leikmennirnir eru félagar í Skautafélagi Akureyrar og eru fyrirliðar Íslandsmeistaraliða Valkyrja og Víkinga, þau Guðrún Blöndal og Jón Gíslason.  Bæði eru þau vel að titlunum komin og hér á eftir fer texti tekinn af heimasíðu ÍHÍ:

 

Íshokkímaður ársins 2010
Jón Benedikt Gíslason er fæddur árið 1983, er fyrirliði SA-Víkinga og fór fyrir sínu liði þegar það tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn í spennandi úrslitakeppni gegn Birninum síðasta vor.  Jón hefur einnig verið einn af lykilleikmönnum íslenska karlalandsliðsins síðasta áratuginn og ekki síst á heimsmeistaramótinu í vor þegar liðið tryggði sér bronsverðlaun í 2.deild sem er besti árangur Íslands frá upphafi.  Jón hefur spilað hokkí frá unga aldri og hefur æft og spilað í Kanada, Finnlandi og Kína þar sem hann var atvinnumaður. 
Jón hefur alla tíð lagt hart að sér við æfingar og þeir eru ófáir morgnarnir sem hann hefur mættur einn á ísinn á aukaæfingar.  Jón leggur jafnframt sitt af mörkum til íþróttarinnar og uppbyggingarinnar, en hann þjálfar yngri flokka auk þess sem hann situr í stjórn íshokkídeildar Skautafélags Akureyrar.


Íshokkíkonaársins 2010
Guðrún Kristín Blöndal er fædd árið 1976, er fyrirliði kvennaliðs SA-Valkyrja og hefur verið lykilleikmaður kvennaliðs Skautafélags Akureyrar undanfarin ár.  Guðrún átti mikinn þátt í árangri liðsins á árinu þegar það  tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn í hreinum úrslitaleik gegn Birninum síðasta vor.  Guðrún er jafnframt leikmaður íslenska kvennalandsliðsins og tekur nú þátt í undirbúningi fyrir heimsmeistaramótið sem fram fer í Reykjavík vorið 2011.
Guðrún er mikil íþróttakona og hefur lagt hart að sér við æfingar síðustu misseri og hefur m.a. ein kvenna sótt allar æfingar með körlunum í old boys liði félagsins.  Auk árangurs á ísnum hefur Guðrún lagt sitt af mörkum til íþróttarinnar í almennum félagsstörfum sem og í undirbúningi móta og uppbyggingu kvennahokkís.