Ice Cup: Skilaboð frá formanni að afloknu glæsilegu móti

Myndir: Sigurgeir Haraldsson
Myndir: Sigurgeir Haraldsson


Frá formanni Krulludeildar til krullufólks:

Kæru félagar! Enn og aftur sýndum við krullufólk hvers við erum megnug með samtakamætti, samstöðu og mikilli vinnu þegar við héldum alþjóðlega krullumótið Ice Cup í ellefta sinn - stærra en nokkru sinni áður og með fleiri erlendum keppendum en innlendum. Einn af erlendu gestunum leggur til að við fáum túristaverðlaun Ferðamálastofu 2014. 

Þó svo nokkrir dagar séu síðan úrslit á Ice Cup lágu fyrir verður hér farið stuttlega yfir mótið, úrslitin, birtar myndir af verðlaunaliðunum og fleira.

Afabarn úr Þrælastríðinu og frækna drottningar
Það skemmtilegasta við að halda svona mót og fá erlenda gesti er að kynnast nýju fólki, eignast nýja vini og endurnýja kynni við gamla. Allir sem vilja komast að skemmtilegum staðreyndum um gestina, en til gamans ætla ég að nefna tvær staðreyndir um fyrirliða sigurliðsins og eiginkonu hans, sem var fyrirliði í öðru liði. Ben Wellington, fyrirliði Skræingja, átti afa sem barðist í Þrælastríðinu. Coco Wellington og Elísabet Bretadrottning eru þremenningar. 

Sigurvegarar Ice Cup 2014, bandaríska liðið Skrælingjar:
Carol Stevenson, Matthew C. Smith, Martha Naber, Ben Wellington.

En þá að úrslitunum (öll aðgengileg í excel-skjali). Eftir að hafa unnið alla leiki fram að úrslitaleiknum mætti tékkneska liðið Icebreakers Metrostav CR bandaríska liðinu (með íslenska nafnið) Skrælingjum í úrslitaleik mótsins. Þar voru það Bandaríkjamennirnir sem höfðu betur. Lokatölur: Icebreakers - Skrælingjar 3-7.

Silfurverðlaunahafar, tékkneska liðið Icebreakers Metrostav CR:
Roman Hasenorhl, Ivana Vinsova, Veronika Neznalova, Matej Neznal. 

Í bronsleiknum unnu Garpar svissnesk-íslenska liðið Ice & Cheese, 10-5. 

Bronsverðlaunahafar, Garpar:
Kristján Björn Bjarnason, Hallgrímur Valsson, Ólafur Hreinsson, Árni Grétar Árnason. 

Eftir leiki föstudagsins var liðunum 20 skipt í þrjár deildir, A, B og C-deild og var einnig leikið til úrslita um sigur í B- og C-deildunum. Í B-deild voru það Skytturnar sem sigruðu bandaríska liðið Sofuolis, 8-4, og í úrslitaleik C-deildar unnu Vancouver Island Marmots öruggan sigur á Beauties and the Beast, 9-0.

Sigurlið í B-deild, Skytturnar:
Sigurgeir Haraldsson, Árni Ingólfsson. Á myndina vantar Ágúst Hilmarsson og Tryggva Þór Gunnarsson.


Sigurlið í C-deild, Vancouver Island Marmots:
Bonnie McPherson, Tom McPherson, Caroline Preston, Jon Preston, Stephen Martin. 


Beauties and the Beast: 
 Gwen Krailo, Susan Haigney og Susan Porada fengu sérstaka viðurkenningu - Gyðjurnar 2014, en þær voru að taka þátt í Ice Cup í sjöunda skiptið.

Heyrnarlausir Rússar 
Mótið og allt sem fram fór í kringum það var í senn skemmtilegt og lærdómsríkt. Ánægja erlendu gesta okkar var nánast yfirþyrmandi og skilaboðin sem við höfum fengið eftir mótið eru öll á einn veg: Gleði og þakklæti. 

Meðal keppenda að þessu sinni voru tvö lið frá St. Pétursborg í Rússlandi og allir leikmenn beggja liða eru heyrnarlausir. Það var bæði skemmtilegt og lærdómsríkt að eiga í samskiptum við þessa nýju vini okkar.

Mikil vinna og margar vinnustundir
Fyrir hönd Krulludeildarinnar vil ég þakka öllum sem komu að undirbúningi og framkvæmd mótsins. Margt krullufólk lagði margar vinnustundir í að gera klárt fyrir mótið, sjá til þess að allt færi velfram og síðast en ekki síst lögðum við okkur öll fram um að láta gestum okkar líða vel. Og það tókst svo sannarlega. Hér neðar í fréttinni er lausleg þýðing á umsögnum nokkurra af erlendu keppendunum sem þeir hafa sent undirrituðum eftir mótið.

Ef nefnd eru nöfn er hætta á að einhver gleymist, en að öðrum ólöstuðum má þó sérstaklega nefna framlag bræðranna Davíðs og Hallgríms Valssona, sem báðir hafa unnið mikið í kringum mótið á hverju ári og hafa haldið utan um og stýrt vinnu annarra - og með því að nefna þá er alls ekki ætlunin að gera lítið úr framlagi annars krullufólks og fjölskyldna. Margir lögðu hönd á plóg og fyrir það vil ég þakka ykkur öllum - þið vitið hver þið eruð. Vinnuframlag ykkar allra er ómetanlegt og þegið með þökkum.

Mig langar samt að nefna eitt nafn í viðbót: Sigurgeir Haraldsson. Hann hefur sett punktinn yfir i-ið með skemmtilegum myndatökum og ég veit hreinlega ekki hvernig lokahóf mótsins yrði án þessara myndasýninga. Enn og aftur bjóðum við upp á eitthvað sérstakt sem fólk er ekki vant á öðrum mótum og það kunnu erlendu gestir okkar vel að meta.

Ein af mörgum skemmtilegum myndum Sigurgeirs frá mótinu - smellið á myndina til að opna myndasíðu Sigurgeirs þar sem finna má myndir frá Ice Cup allt frá 2008 til dagsins í dag.

Frábær og hvetjandi ummæli
Mig langar í lokin að koma á framfæri broti af þeim skilaboðum sem til mín hafa borist frá erlendum keppendum eftir mótið, í lauslegri þýðingu. 

Keppandi með mikla reynslu af að skipuleggja mót segir:

"Við verðum að þakka þér fyrir þessa frábæru upplifun í liðinni viku. Ég hef skipulagt mörg krullumót og veit hver mikill tími og fyrirhöfn fara í svona mót. Þið voruð stórkostleg! Við nutum tímans á Íslandi og Akureyri í botn. Við komum aftur."

Annar segir þetta:

"Þetta var frábær skemmtun. Gestrisnin sem þú og félagar þínir sýndu okkur var stórkostleg og bjargaði ferðinni fyrir mig."

Og frá öðrum keppanda kom þessi skemmtilega umsögn:

"Mig langaði bara til að þakka ykkur aftur fyrir þá frábæru skemmtun sem þið buðuð upp á fyrir okkur öll sem vorum á Ice Cup 2014. Í hreinskilni sagt finnst mér að þú og félagar þínir ættuð skilið að Ferðamálastofa veitti ykkur Ferðamálaverðlaunin 2014! Þið voruð öll svo hlýleg og opin og (það sem er best af öllu), skemmtileg - þetta allt gerði ferðina eftirminnilega. Þó svo við höfum hitt margt yndislegt fólk á meðan við dvöldum og ferðuðumst um Ísland eru það félagar í Krulludeild SA sem bera höfuð og herðar yfir alla hina. Ég vona bara að okkur lánist að koma aftur á Ice Cup sem fyrst!"

 

Krullufólk, takk fyrir allt!
Haraldur Ingólfsson, fráfarandi formaður Krulludeildar.