Ice Cup og Krulludagar

Krulludagar verða haldnir í fyrsta skipti í vor til að fagna 15 ára afmæli Krulludeildar SA. Endapunktur Krulludaga verður alþjóðlega krullumótið Ice Cup sem fer fram 5.-7. maí.

Stjórn Krulludeildar og mótanefnd Krulludeildar komu saman til fundar sl. miðvikudagskvöld og tóku ákvörðun um tímasetningu Ice Cup 2011. Ákveðið hefur verið að halda svokallaða Krulludaga, meðal annars í tilefni af 15 ára afmæli Krulludeildar SA, sem stofnuð var 22. maí 1996. Krulludagarnir munu síðan enda með því að við höldum okkar árlega alþjóðlega krullumót, Ice Cup.

Ice Cup verður semsagt hluti af Krulludögum. Mótið sjálft fer fram 5.-7. maí (hefst líklega síðdegis á fimmtudegi) en vikuna á undan, væntanlega frá föstudeginum 29. apríl verða Krulludagar þar sem áhersla verður lögð á að fá nýtt fólk til að prófa og keppa í krullu, auk þess sem krullufólk sem nú þegar stundar íþróttina fær tækifæri til æfinga og jafnvel einhvers konar náms eða þjálfunar.

Nánari dagskrá fyrir Krulludaga er í smíðum en ljóst er að til að gera Krulludaga 2011 veglega og enda þá með góðu Ice Cup móti þarf samstillt átak krullufólks og margar vinnufúsar hendur þegar þar að kemur. Allar góðar hugmyndir að því hvernig við náum til fólks, hvaða hópa við eigum að fá og hvers kyns mót við getum haldið eru vel þegnar.

Undirbúningur og markaðssetning Krulludaga fer í gang fljótlega og vonandi tekst okkur að fá sem flesta í Skautahöllina í vor til að prófa íþróttina sem við elskum.

Af Ice Cup er annars það að frétta að nú þegar hafa borist fyrirspurninr erlendis frá, m.a. frá Bandaríkjunum, Kanada og Noregi. Allar líkur eru á að við fáum bandarísku vinkonur okkar í heimsókn í fimmta skiptið og jafnvel fleiri þátttakendur sem hafa komið hingað áður. Unnið verður að markaðssetningu Ice Cup sem hluta af "Iceland Curling Week" og með áherslu á fimmtán ára afmælið.