Hokkífólk á faraldsfæti


Fjölmargir leikmenn frá SA eru á leið á alþjóðlega hokkímótið Iceland International Ice Hockey Cup sem fram fer í Egilshöllinni um helgina. Jötnar fara í Laugardalinn á laugardaginn.

Segja má að hokkileikmenn af öllum gerðum haldi suður til keppni á mótinu, leikmenn úr meistaraflokki kvenna, Old boys og Valkyrjur. Að auki fara Jötnar suður um helgina og leika gegn Fálkum kl. 18.30 á laugardaginn í Skautahöllinni í Laugardal.

Alls fara 32 konur suður til keppni á Ice Hockey Cup í Egilshöllinni. Landsliðskonur raðast í tvö lið, Iceland Blue og Iceland White í Elítudeildinni þar sem þær mæta ameríska liðinu The Bandits. Að auki eru tvö kvennalið héðan, SA í A-deildinni og Valkyrjur í B-deildinni.

Í karlaflokki eigum við eitt Old-boys lið, en að auki tekur lið Narfa þátt í mótinu og þótt fréttaritari hafi ekki nákvæmar fréttir eða leikmannalista er rökstuddur grunur um að þar innanborðs séu kunnugleg nöfn úr sögu Skautafélags Akureyrar.

Fimm erlend karlalið og fimm erlend kvennalið taka þátt í mótinu, en þau koma frá Finnlandi, Kanada, Bandaríkjunum og Noregi.

Við óskum okkar fólki góðs gengis um helgina!

Leikjadagskráin (pdf)