Heimsmeistaramótið í flokki U18

Síðustu 10 daga eða svo hafa sterkustu þjóðir heims att kappi í Svíþjóð í baráttu um heimsmeistaratitil unglingalandsliða (U18). 

Nú er ljóst að það verða Finnar og Bandaríkjamenn sem spila til úrslita um gullverðlaun . Finnar unnu Kanadamenn 3-2 í framlengdum leik en Bandaríkjamenn komust í úrslitin með 4-3 sigri á Tékkum. Leikur Finna og Kanadamann var jafn og spennandi og lentu Finnar 1-0 undir í fyrsta leikhluta. Annar leikhluti fór 1-1 og Finnar því enn marki undir í upphafi 3. leikhluta. Finnum tókst svo að jafna í 2-2 og fór leikurinn í framlengingu. Á annarri mínútu framlengingar skora Finnar svo gullmark og vinna leikinn.

Í hinum leiknum komust Bandaríkjamenn í 3-0 í fyrsta leikhluta en Tékkar unnu hina tvo leikhlutana 1-0 og 2-0 og því varð að framlengja þennan leik einnig. Bandaríkjamenn unnu svo með gullmarki þegar tæpar 7 mínútur voru liðnar af framlengingu.

Þetta er annað árið í röð sem USA leikur um gull í U18 en Finnar hafa ekki komist í þennan úrslitaleik síðan árið 2000.