Gimli Cup: Víkingar eða Fálkar vinna Gimli-bikarinn

Víkingar áttu ævintýralegan endasprett í leik sínum í kvöld og standa best að vígi fyrir lokaumferðina. Fálkar eiga þó enn von.

Það sannaðist eins og oft áður í leikjum kvöldsins að "það er ekki búið fyrr en það er búið". Skytturnar virtust ætla að innbyrða sigur gegn Víkingum, komust í 7-3 fyrir lokaumferðina, en Víkingar skoruðu fjóra steina og jöfnuðu leikinn. Víkingar bættu svo um betur og skoruðu tvo steina í aukaumferðinni og unnu leikinn. Fífurnar og Mammútar áttust við í spennandi leik þar sem Mammútar áttu möguleika á að jafna í lokaumferðinni og tryggja sér aukaumferð en lokasteinninn var of laus. Fífurnar sigruðu því 4-3. Fálkar sigruðu Riddara 6-3.

Staðan fyrir lokaumferðina er þannig að Víkingar og Fálkar hafa fjóra vinninga, Fífurnar og Garpar þrjá, Riddarar tvo en Mammútar og Skytturnar sitja á botninum með einn vinning. Víkingar standa hins vegar best að vígi þvi þeir eiga eftir einn leik, en Fálkar hafa lokið sínum leikjum og sitja yfir í lokaumferðinni.

Staðan:

Lið 
sigrar
  töp 
 Víkingar  
  4  1
 Fálkar
  4  2
 Garpar  3
  2
 Fífurnar
  3  2
 Riddarar
  2
  3
 Mammútar
  1
  4
 Skytturnar
  1
  4

Miðað við stöðuna fyrir lokaumferðina, úrslit í innbyrðis leikjum efstu liða og árangur í skotum að miðju er staða Víkinga vænlegust. Þeim nægir að sjálfsögðu að vinna sinn leik í lokaumferðinni til að tryggja sér Gimli-bikarinn þetta árið því Fálkar sitja yfir í lokaumferðinni eins og áður sagði. Víkingar geta reyndar einnig unnið mótið þótt þeir tapi, en hins vegar eiga Fálkar möguleika á að fá Gimli-bikarinn ef úrslit falla rétt fyrir þá. Lítum á möguleikana:

1) Ef Víkingar vinna sinn leik eru þeir sigurvegarar mótsins með 5 vinninga. Þá eru Fálkar öruggir í öðru sæti hvort sem Fífurnar og Garpar ynnu sína leiki eða ekki því ef þessi þrjú lið enda jöfn í 2.-4. sæti standa þau jöfn í innbyrðis viðureignum en Fálkar myndu vinna á árangri úr skotum að miðju. Endi Fálkar jafnir bara öðru þessara liða, Fífunum eða Görpum, í 2.-3. sæti raðast þeir ofar þar sem þeir sigruðu bæði þessi lið.

2) Ef Víkingar tapa, en Fífurnar og Garpar vinna enda fjögur lið efst og jöfn með 4 vinninga. Þar yrðu Fálkar og Víkingar ofar á innbyrðis viðureignum, og Víkingar síðan fyrir ofan Fálka vegna sigurs í innbyrðis viðureign þessara liða. Garpar fengju þá þriðja sætið út á sigur í leik þeirra gegn Fífunum.

3) Ef Víkingar tapa, Garpar vinna og Fífurnar tapa enda Fálkar, Garpar og Víkingar efstir og jafnir með 4 vinninga. Víkingar myndu þá vinna mótið þar sem þeir unnu bæði Fálka og Garpa, Fálkar fengju annað sætið og Garpar það þriðja.

4) Ef Víkingar tapa, Garpar tapa og Fífurnar vinna enda Fálkar, Fífurnar og Víkingar jöfn með 4 vinninga og eru auk þess jöfn í innbyrðis viðureignum. Þá gildir árangur í skotum að miðju. Þar standa Fálkar best að vígi með meðaltalið 47,6 sm og myndu vinna mótið því þó svo Víkingar eða Fífurnar myndu fá 0,0 í skoti að miðju fyrir síðasta leikinn þá dugar það þeim ekki til að ná Fálkum. Víkingar gætu komist í 50,3 sm meðaltal með því að setja steininn á miðjupunktinn í lokaleiknum og Fífurnar gætu komist í 89,9 sm meðaltal með sams konar skoti.

5) Ef Víkingar, Garpar og Fífurnar tapa enda Fálkar og Víkingar efstir og jafnir, en Víkingar ynnu þá mótið vegna sigurs í leik sínum gegn Fálkum.

Lokaumferðin verður leikin mánudagskvöldið 29. nóvember, en þá eigast við:

Braut 2: Fífurnar - Riddarar (bæði lið sjá um ísinn)
Braut 4: Víkingar - Mammútar
Braut 5: Garpar - Skytturnar