Gimli Cup - lokaumferð

Sjöunda og síðasta umferðin í Gimli Cup verður leikin í kvöld kl. 20-22.
Leikir kvöldsins:

Braut 1: Skytturnar - Garpar
Braut 2: Riddarar - Mammútar
Braut 4: Üllevål - Fífurnar
Braut 5: Víkingar - Svarta gengið

Ísumsjón: Svarta gengið, Fífurnar, Riddarar, Üllevål

Þrjú lið eiga enn möguleika á að vinna mótið, Skytturnar, Garpar og Mammútar. Auk þessara liða gætu Víkingar, Riddarar og Fífurnar náð fjórum vinningum og tvö til fimm lið orðið jöfn í baráttunni um silfur og brons með fjóra vinninga. Þá er þeim raðað eftir innbyrðis viðureignum og er of langt mál að fara út í allar mögulegar niðurstöður í því.

Skytturnar eru í efsta sætinu fyrir lokaumferðina og með sigri myndi liðið að sjálfsögðu halda því. Fari svo að Skytturnar vinni Garpa geta þrjú til fimm lið orðið jöfn með fjóra sigra (Fífurnar, Mammútar, Riddarar, Víkingar og Garpar). Röðun í annað og þriðja sæti getur þá orðið mismunandi eftir því hvaða lið það yrðu sem næðu fjórum vinningum.

Önnur möguleg útkoma, ef Skytturnar vinna sinn leik, er að Mammútar tryggi sér fimm vinninga og annað sæti með sigri á Riddurum. Þá er aftur möguleiki á að Garpar fái Víkinga og Fífurnar upp að hlið sér með fjóra vinninga í baráttu um bronsið. Af þessum þremur liðum standa Garpar best.

Fari hins vegar svo að Garpar sigri Skytturnar getur staðan engu að síður orðið sú að Skytturnar standi uppi sem sigurvegarar mótsins. Annars vegar getur komið upp sú staða að Garpar sigri Skytturnar og Mammútar sigri Riddara. Þá eru Garpar, Mammútar og Skytturnar öll jöfn með fimm vinninga og standa jöfn með einn vinning hvert í innbyrðis viðureignum. þá koma til sögunnar unnar umferðir og þar standa Skytturnar best, hafa unnið 24 umferðir, Mammútar 21 og Garpar 20.

Annar möguleiki er að Garpar sigri Skytturnar en Mammútar tapi gegn Riddurum. Þá enda Garpar og Skytturnar jöfn og efst með fimm vinninga og Garpar raðast ofar vegna sigurs á Skyttunum. Mammútar eru þá með fjóra vinninga og þá ná Riddarar þeim og jafnvel Fífurnar og Víkingar líka.