Gimli Cup: Línurnar skýrast

Dramatískur endir varð á leik Garpa og Üllevål í kvöld. Skytturnar einar á toppnum fyrir lokaumferðina.

Í kvöld fóru fram frestaðir leikir, annar úr fjórðu og hinn úr sjöttu umferð. Annars vegar áttust við Garpar og Üllevål og hins vegar Fífurnar og Riddarar. Fyrir leiki kvöldsins höfðu Garpar aðeins tapað einum leik eins og Skytturnar. Þeir byrjuðu á að skora þrjú stig í fyrstu umferðinni en síðan vann Üllevål næstu fjórar umferðir og staðan orðin 6-3 þeim í vil fyrir lokaumferðina. Þegar hvort lið átti eftir einn stein höfðu Garpar tvo steina inni en síðasti steinn Üllevål mistókst þannig að Garpar áttu gott færi á að jafna leikinn og knýja fram framlengingu með því að bæta þriðja stiginu við. Sá steinn virtist ætla að gera það sem þurfti en eitthvað klikkaði hraðamatið því hann hitt í innsta stein Garpanna sem aftur fór í næstinnsta stein þeirra og sá steinn færðist um nokkra sentímetra - nóg til þess að steinn frá Üllevål var nær en þriðji steinn Garpanna. Garpar skoruðu sem sagt bara tvö stig í lokaumferðinni og urðu að játa sig sigraða. Riddarar héldu lífi í von sinni um verðlaunasæti með sigri á Fífunum í kvöld, 8-2.

Úrslit kvöldsins:

Üllevål - Garpar  6-5
Fífurnar - Riddarar  2-8

Eftir leiki kvöldsins standa Skytturnar með pálmann í höndunum og myndu með sigri á Görpum í lokaumferðinni tryggja sér sigur í mótinu. Jafnvel þótt Skytturnar myndu tapa fyrir Görpum gæti liðið engu að síður staðið uppi sem sigurvegari mótsins. Nánar verður farið yfir það fyrir lokaumferðina hvaða lið eiga möguleika á hvaða sætum en staðan fyrir lokaumferðina er nú þessi:

Skytturnar
 5-1 
Mammútar
 4-2
Garpar 
 4-2
Riddarar 
 3-3
Fífurnar
 3-3
Víkingar
 3-3
Üllevål
 2-4
Svarta gengið 
 0-6

Við röðun liða sem enda jöfn að stigum er það fyrst innbyrðis viðureign, eða viðureignir ef fleiri en tvö lið eru jöfn, sem skipta máli. Ef útkoman úr þeim dugir ekki er það fjöldi unninna umferða sem sker úr um röð og ef það dugir ekki þá fjöldi skoraðra steina. Eins og staðan er nú raðast Mammútar ofar Görpum vegna sigurs í viðureign þessara liða. Útkoman í innbyrðis viðureignum Riddara, Fífanna og Víkinga er jöfn (Riddarar unnu Fífurnar, Fífurnar unnu Víkinga og Víkingar unnu Riddara) þannig að þessi þrjú lið raðast nú eftir fjölda unninna umferða (Riddarar 18, Fífurnar 17, Víkingar 15). Síðan á staðan auðvitað eftir að breytast í lokaumferðinni - því ekki vinna öll liðin í einu!

Í lokaumferðinni eigast við Skytturnar og Garpar, Mammútar og Riddarar, Fífurnar og Üllevål, Víkingar og Svarta gengið.

Leikjadagskrá og öll úrslit er að finna í excel-skjali hér.