Gimli Cup hefst í kvöld

Sigurvegarar Gimli Cup 2012: Mammútar
Sigurvegarar Gimli Cup 2012: Mammútar


Sex lið eru skráð til leiks í Gimli Cup krullumótinu. Mótið hefst í kvöld, en fyrir fyrstu umferð verður dregið um töfluröð. Áður en undirbúningur fyrir Gimli Cup hefst í kvöld verða afhent verðlaun fyrir Akureyrarmótið í krullu sem lauk fyrir viku. Dagskráin hefst kl. 19.45 og er krullufólk því hvatt til að mæta snemma í kvöld.

Leikdagar í Gimli Cup eru 11., 18. og 25. nóvember og 2. og 9. desember. Komi til þess að fresta þurfi leikjum verða þeir leiknir á miðvikudagskvöldi, annað hvort í sömu vikunni eða næstu viku á eftir. Hér er leikjadagskrá, liðin og röðun á brautir (excel-skjal). Í skjalinu eru leikir settir á brautir 1, 2 og 3, og verður ákveðið hverju sinni hvaða brautir verða notaðar.

Sex lið eru skráð til leiks og leika þau í einum riðli, allir við alla. Efsta liðið sigrar, en ekki verða leiknir sérstakir úrslitaleikir. Um röðun liða gildir ákvæði í mótareglum Krulludeildar sem byggja á reglum WCF.

Liðin sem skráð eru til leiks:
Dollý, Freyjur, Ice Hunt, Mammútar, Skytturnar, Víkingar.

Varðandi mætingu og frestun leikja má minna á ákvæði í mótareglum Krulludeildar: 

6. Mæting í leiki og frestun leikja
a. Að jafnaði skulu vera fjórir leikmenn í hvoru liði þegar leikur hefst. Hefja má þó leik
með þremur leikmönnum ef gildar ástæður liggja fyrir forföllum. Komi fjórði maður til
leiks eftir að leikur er hafinn má hann hefja leik í sinni stöðu þegar næsta umferð eftir
að hann mætir til leiks hefst.
b. Sjái liðsstjóri fram á að geta ekki mætt til leiks með að minnsta kosti þrjá leikmenn í
tiltekinn leik skal hann hafa samband við liðsstjóra andstæðinganna eigi síðar en í
hádeginu á keppnisdegi og biðja um frestun. Við veikindi eða í mjög óvæntum tilvikum
er heimilt að hafa samband síðar. Ef óska þarf eftir frestun leiks skulu liðsstjórar hafa
virðingu við andstæðinginn og íþróttina að leiðarljósi. Komi liðsstjórar sér saman um
frestun skulu þeir gera mótsstjórn viðvart sem finnur nýjan leikdag.
c. Ef ekki hefur verið óskað eftir frestun leiks og lið mætir til leiks með færri en þrjá
leikmenn gildir grein R11 í reglum WCF.