Brynjumótið afstaðið - myndir komnar í hús

Mynd: Ásgrímur Ágústsson
Mynd: Ásgrímur Ágústsson


Leikgleðin skein úr hverju andliti á svellinu í Skautahöllinni á Akureyri um helgina. Krakkar í 5., 6., 7. og krílaflokki skautuðu, skoruðu, vörðu og skemmtu sér á Brynjumótinu.

Um 130 krakkar voru á fullu í Skautahöllinni á Akureyri alla helgina þar sem fram fór Brynjumótið í íshokkí í 5., 6. og 7. flokki, auk þess sem fram fóru skemmtilegir leikir hjá þeim allra yngstu, sem kalla mætti krílaflokk. Þátttakendur á mótinu voru á aldrinum frá fjögurra upp í tólf ára. Mikið var um skemmtileg tilþrif á svellinu, fallegt spil, mörg glæsileg mörk en líka margar frábærar markvörslur. Leikgleðin var í fyrirrúmi og að sjálfsögðu fengu allir þátttakendur viðurkenningu að mótinu loknu.

Það ver Verslunin Brynja sem er aðalstyrktaraðili mótsins, en mótið á sér langa sögu innan Skautafélags Akureyrar og hefur unnið sér fastan sess í starfsemi félagsins.

Skautafélögin þrjú, Skautafélag Akureyrar, Skautafélagið Björninn og Skautafélag Reykjavíkur áttu öll lið í mótinu, og að sjálfsögðu fylgdu margir foreldrar keppendunum, bæði gestunum að sunnan sem og heimakrökkum. Framkvæmd mótsins hvíldi að miklu leyti á foreldrunum sjálfum. Skautafélag Akureyrar þakkar þeim sem tóku þátt í mótinu og komu að framkvæmd þess á einn eða annan hátt. Það gildir það sama um þetta íþróttamót og svo mörg önnur að það væri óframkvæmanlegt án framlags sjálfboðaliða.

Verslunin Brynja fær síðast en ekki síst bestu þakkir fyrir stuðninginn!

Hirðljósmyndari SA, Ásgrímur Ágústsson, myndaði eitthvað um helgina og má sjá afrakstur þess í myndaalbúmi hér. Við lofum þó ekki að hér séu myndir af öllum sem spiluðu eða horfðu á íshokkí í höllinni um helgina.