Áramótamótið: Jólasveinarnir sigruðu!

Sigurvegarar Áramótamótsins 2009, Jólasveinarnir. Frá vinstri: Karl Ólafur Hinriksson, Jón Einar Jóh…
Sigurvegarar Áramótamótsins 2009, Jólasveinarnir. Frá vinstri: Karl Ólafur Hinriksson, Jón Einar Jóhannsson, Hallgrímur Bóas Valsson og Jón Grétar Rögnvaldsson.
Eitt fjölmennasta Áramótamót Krulludeildar frá upphafi fór fram í gærkvöldi, 38 þátttakendur, vel heppnuð og skemmtileg kvöldstund.

Alls hófu 37 manns leik þegar Áramótamótið fór af stað en síðan bættist einn við og þátttakendur því 38. Elstu menn muna vart eftir annarri eins þátttöku í þessu skemmtilega og árlega móti þar sem keppnisskapið er sett ofar öllu. Í þessu fjölmenni notuðu nokkrir sem sjaldan fá að stýra leik síns liðs en stóðu í þeim sporum í gær og reyndu að vekja athygli annarra keppenda og áhorfenda með miklum öskrum þegar hvetja þurfti sópara til dáða.

Nokkrir af þátttakendunum höfðu talað sig saman í lið fyrir mótið, til dæmis eitt liðið sem skipað var föður, tveimur sonum og einum tengdasyni, annað lið sem skipað var föður, sambýliskonu og dóttur, eitt liðið var skipað hokkíleikmönnum núverandi og fyrrverandi en hin sjö liðin voru mynduð með því að draga saman leikmenn. Alls tóku tíu lið þátt í mótinu, þar af voru sjö fullskipuð með fjórum leikmönnum en þrjú voru skipuð aðeins þremur leikmönnum. Eitt þriggja manna liðið fékk reyndar liðsstyrk eftir að mótið hófst.

Spilaðir voru fjögurra umferða leikir, samtals þrír leikir á hvert lið eftir Schenkel-kerfi. Í lokaumferðinni áttust við tvö efstu liðin, Jólasveinarnir og Gíslarnir. Gíslarnir urðu að vinna til að tryggja sér sigur í mótinu en Jólasveinunum nægði jafntefli. Sú varð líka niðurstaðan, Jólasveinarnir náðu að jafna leikinn í lokaumferðinni án þess að senda sinn síðasta stein. Þar með enduðu Gíslarnir í öðru sæti en ef hins vegar Jólasveinarnir hefðu unnið þennan leik þá hefðu Gíslarnir fallið niður í fimmta sæti, niður fyrir Vatnsheilana, Andra og Stjörnurnar.

Lið sigurvegaranna var skipað þeim Hallgrími Valssyni, Karli Ólafi Hinrikssyni, Jóni Einari Jóhannssyni og Jóni Grétari Rögnvaldssyni. 

Myndasmiðir sem tóku þátt í mótinu og eru til í að deila myndum með öðru krullufólki eru beðnir um að senda listaverk sín á netfangið haring@simnet.is.

Úrslit allra leikja, röð liðanna og liðsskipan er að finna í excel-skjali hér.