Aðalfundur Krulludeildar: Hagnaður af rekstri, stjórnin endurkjörin

Aðalfudur Krulludeildarinnar fór fram í Skautahöllinni mánudagskvöldið 17. maí.

Góð mæting var á aðalfundinn og fór hann fram með hefðbundnum hætti, venjuleg aðalfundarstörf auk umræðna um aðstöðumál krullufólks. Gunnar H. Jóhannesson var skipaður fundarstjóri og Svanfríður Sigurðardóttir fundarritari. Formaður og gjaldkeri fluttu skýrslur sínar og fóru fram umræður og fyrirspurnir í framhaldi af þeim. Fram kom í reikningum, sem áttu þó eftir að endurskoðast formlega og fara síðan til samþykktar á aðalfundi Skautafélagsins, að hagnaður varð af rekstri krulludeildar 2009 upp á tæpar 50.000 krónur án fjármagnsliða en rúmar 112.000 krónur að viðbættum fjármagnsliðum. Þetta var viðsnúningur frá árinu áður. Eignir deildarinnar eru upp á ríflega eina milljón, þar af tæplega 950.000 krónur í handbæru fé.

Allir stjórnarmenn gáfu kost á sér til áframhaldandi setu og var stjórnin endurkjörin með lófataki án mótframboða. Stjórn Krulludeildar sem var endurkjörin er þannig skipuð: Hallgrímur Valsson formaður, Ólafur Hreinsson varaformaður, Svanfríður Sigurðardóttir ritari, Davíð Valsson gjaldkeri, Ólafur Númason meðstjórnandi og þeir Gísli Kristinsson og Sævar Sveinbjörnsson varamenn.

Á dagskrá fundarins var einnig kynning formanns á stöðu húsnæðismála og kynnti hann þar þá vinnu sem farið hefur fram við leit að hentugu húsnæði þar sem krullufólk gæti notið þess að hafa sína eigin aðstöðu út af fyrir sig. Erindið var fróðlegt og sköpuðust miklar umræður um þetta mál. Að lokum kom síðan fram tillaga sem samþykkt var samhljóða þar sem lýst var ánægju með þá vinnu sem húsnæðisnefndin hefur unnið og stjórn Krulludeildar hvött til að halda áfram á sömu braut.

Undir liðnum önnur mál urðu einnig miklar og góðar umræður um hin ýmsu mál er varða krullufólk, deildina, aðildina og starfið innan Skautafélagsins og margt fleira.