100 ára fæðingarafmæli Ágústar Ásgrímssonar

Ágúst Ásgrímsson fæddist í Innbænum árið 1911 og bjó þar alla sína ævi.  Ágúst var einn af stofnendum Skautafélags Akureyrar og einn þriggja manna sem skipuðu fyrstu stjórn félagsins í framhaldi stofnfundarins á Nýársdag árið 1937.  Skautaíþróttin var ástríða hans alla tíð og þekktastur var hann fyrir hæfni sína á listskautum en spilaði bæði íshokkí og keppti í skautahlaupi.   Hann lærði listdans á skautum með lestri á norskri kennslubók samhliða þrotlausum æfingum á pollinum og álnum fyrir framan Aðalstrætið.   Árið 1927 fékk hann sent frá Kanada íshokkíútbúnað, að því er talið er þann fyrsta sinnar tegundar hér á landi og markaði upphaf íshokkís á Akureyri.  Ágúst var virkur félagsmaður alla sína tíð og nýtti hvert tækifæri til að reima á sig skautana, í síðasta skiptið á andlátsári sínu 1991.  Ágúst var gerður að heiðursfélaga árið 1988.

Ágúst hefði orðið 100 ára á þessu ári og af því tilefni verður frítt á skauta fyrir almenning frá kl. 13 - 16 sunnudaginn 18. desember.  Kl. 17:00 verður svo jólasýning listhlaupadeildar sem að þessu sinni er tileinkuð Ágústi.

Fyrir þá sem ekki þekkja vel til Gústa þá eru sum barna hans og barnabarna og barnabarnabarna virk í skautaheiminum í dag.  Heiðar Inga Ágústsson, í dag kenndur við Everest, þekkja allir í íshokkíinu og annar sonur Gústa, hirðljósmyndari Skautafélagsins Ásgrímur Ágústsson er flestum kunnur.  Barnabarna börnin hans þær Bergþóra Bergþórsdóttir og Anna Sonja Ágústsdóttir spila í dag með meistaraflokkum SA, Ynjum og Ásynjum.  Þær eru dætur tvíburabræðranna Ágústar og Bergþórs sem gerðu garðinn frægan í hokkíinu hér á árum áður, Gústi síðast í Narfa frá Hrísey.

Það er tilvalið að nota tækifærið og skella sér frítt á skauta á aðventunni að þessu skemmtilega tilefni.  Sjáumst í skautahöllinni.