Íslandsmót 2018

Garpar og Riddarar leika til úrslita um Íslandsmeistaratitilinn 2018
Garpar náðu góðum sigri á Ice Hunt í lokaleik forkeppninnar og unnu því alla leiki sína og enduðu með þrjú stig. Í leiknum byrjaði Ice Hunt betur og vann fyrstu tvær umferðirnar en í þriðju umferð skoruðu Garpar þrjú stig og eitt í næstu þremur umferðum og staðan orðin 6 – 2 eftir sex umferðir. Ice Hunt náði einum stein í sjöundu og Garpar enduðu á að skora tvo í síðustu umferð og vinna 8 – 3. Spennan var mun meiri í leik Riddara og Víkinga þar sem Víkingar skoruðu einn stein í fyrstu þremur umferðum áður en Riddarar vöknuðu og skoruðu einn í fjórðu umferð og tvo í fimmtu og jöfnuðu leikinn. Víkingar náðu einum í sjöttu og svo kom þristur hjá Riddurum og staðan orðin 6 – 4 fyrir loka umferðina. Víkingar áttu eina steininn í hringnum þegar Riddarar tóku sinn síðasta stein og ætluðu að tryggja sér sigur með útskoti sem klikkaði og Gísli setti svo sinn síðasta stein inn og jafnaði sem tryggði Víkingum framlengingu sem Riddarar náðu að vinna með tveimur og tryggja sig í úrslitaleikinn. Ice Hunt menn biðu spenntir eftir úrslitunum þar sem þeir höfðu möguleika á að komast í úrslitaleikinn ef Víkingar hefðu náð að sigra Riddara. Ice Hunt hefði þá komist í úrslit á fleiri unnum umferðum heldur en Riddarar og Víkingar. Úrslitaleikirnir verða n.k.mánudag 26. mars. kl 20:00.