Aðalfundur Krulludeildar þriðjudaginn 22. apríl


Boðað er til aðalfundar Krulludeildar Skautafélags Akureyrar þriðjudaginn 22. apríl kl. 20.00 í fundarherbergi Skautahallarinnar. Fundurinn verður jafnframt kynningar- og undirbúningsfundur vegna Ice Cup og er krullufólk sem tekur þátt í mótinu hvatt til að mæta.

Á fundinum fara fram venjuleg aðalfundarstörf skv. lögum deildarinnar. Í lögum deildarinnar segir um aðalfund deildarinnar:

Fyrir 1. maí ár hvert skal Krulludeild halda aðalfund sinn. Atkvæðisrétt á þeim fundi hafa allir félagar deildarinnar. Til aðalfundar skalboðað með viku fyrirvara í dagblöðum, dagskrám og/eða heimasíðu félagsins og er hann lögmætur sé löglega til hans boðað.

Dagskrá aðalfundar skal vera sem hér segir:
1. Kosinn fundarstjóri og fundarritari
2. Stjórn deildarinnar gefur skýrslu um starfsemi deildarinnar á liðnu starfsári.
3. Stjórn deildarinnar gefur skýrslu um fjárhag deildarinnar og leggur fram endurskoðaða reikninga.
4. Kosning stjórnar. Formaður skal kosinn sérstaklega en á fyrsta fundi stjórnar eftir aðalfund skal hún skipta með sér öðrum verkum sem eru, auk formanns: varaformaður, ritari, gjaldkeri, meðstjórnandi og tveir varamenn. Kosning skal vera til eins árs í senn og skal hún vera skrifleg sé þess óskað.
5. Kosning fulltrúa Krulludeildar í stjórn SA
6. Lagabreytingar
7. Önnur mál er fram kunna að koma.

Á aðalfundinum ræður meirihluti atkvæða úrslitum allra mála."


Formaður Krulludeildar hefur ákveðið að gefa ekki kost á sér til áframhaldandi setu í því embætti og ekki heldur í aðalstjórn Skautafélagsins. Aðrir i stjórn krulludeildar gefa kost á áframhaldandi setu.

Undirbúnings- og kynningarfundur vegna Ice Cup
Undir liðnum önnur mál verður farið yfir skipulag, reglur og vinnuþörf í kringum og á Ice Cup mótinu. Krulludeildin hefur svellið frá sunnudagskvöldi 27. apríl til undirbúnings, en mótið hefst fimmtudaginn 1. maí kl. 9. Þátttakendur í Ice Cup eru því hvattir til að mæta á fundinn.